Víkingur Heiðar kynnir heim klassískrar tónlistar

November 19, 2008

Húsfyllir hefur verið á dagskrá Víking Heiðars Ólafssonar, píanóleikara, og Árna Heimis Ingólfssonar, tónlistarfræðings, sem síðustu daga hafa heimsótt fimm framhalds- og háskóla á höfuðborgarsæðinu.

Í skólunum hafa þeir kynnt fyrir hlustendum heim klassískrar tónlistar með tónleikum og kynningu sem samanstendur af spjalli um tónskálind og verk þeirra. Dagskráin er styrkt af Kraumi, en Víkingur og Árni voru með þeim fyrstu til að hljóta stuðning frá tónlistarsjóðnum í vor.

Skólarnir sem tóku þátt í dagskránni, sem og nemendur þeirra, hafa tekið framtakinu frábærlega. “Viðtökur voru framar öllum vonum og nemendur jafnt sem skólastjórnendur létu í ljós mikla og almenna ánægju með framtakið” segir Árni Heimir. Skólarnir sem um ræðir eru; Flensborg, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólinn í Reykjavík (dagskrá fór fram í Háskólabíói), Háskólinn í Reykjavík (dagskrá fram í Borgarleikhúsinu) og Háskóli Íslands.

“Oft setur fólk sig í sérstakar stellingar þegar það hugsar um klassískar listir” segir Víkingur Heiðar í samtali við Fréttablaðið. “Við reynum að losa þessar stellingar og vekja athygli á því að best sé að upplifa tónlistina á sínum eigin forsendum. Það hefur gengið vel og orkan úr salnum er mjög góð.”

Framhald verður á tónleikakynningunni á næsta ári, að öllum líkindum í febrúar. Þá verði sömu skólar heimsóttir, en með aðra efnisskrá sem snýst um tónlist 20. aldarinnar.