Úthlutun úr Kraumi tónlistarsjóði

April 9, 2014

Kraumandi bullandi síslandi á Íslandi

Kraumur tónlistarsjóður úthlutar í dag 7.3 milljónum til íslenskra listamanna og verkefna sem stendur til að framkvæma árið 2014. Um er að ræða fjölbreytt verkefni listafólks sem mun leggja land undir fót, kynna sig og koma fram bæði hér á Íslandi og erlendis. Rúmlega sjö milljónum króna er varið til 13 verkefna á sviði innrásar og útrásar íslenskrar tónlistar en einnig er stuðlað að námskeiðum og fræðslu. Hæstu styrkina hljóta að þessu sinni hljómsveitin Mono Town, og sameiginleg tónleikaferð Sólstafa og Kontinuum, en hvort verkefnið um sig hlýtur eina milljón króna í styrk.

Í dag var tilkynnt hvaða verkefni Kraumur tónlistarsjóður styrkir í fyrri úthlutun sinni 2014. Stuðningur Kraums tónlistarsjóðs við íslenskt tónlistarlíf heldur áfram af miklum krafti á þessu sjöunda starfsári sjóðsins en það var árið 2008 sem hann tók til starfa. Opið var fyrir umsóknir í febrúar og 131 umsókn barst sjóðnum sem er sjálfstætt starfandi afl í íslensku tónlistarlandslagi. Flestar umsóknirnar tengdust lifandi flutning á tónlist, tónleikaferðum, hátíðum og kynningu á nýju efni umsækjanda. Næst á eftir komu umsóknir sem höfðu með útgáfu og upptökur á nýjum hljóðritum að gera.

Það eru 13 fjölbreytt verkefni sem hljóta stuðning sem öll eiga það sameiginlegt að vera metnaðarfull og margbreytileg. Þetta eru verkefni sem endurspegla þann mikla kraft og sköpunargleði sem einkennir íslenska tónlist og tónlistarfólk.

Það er engum blöðum um það að fletta að íslensk tónlist er frumleg, framsækin og eftirsóknarverð. Tónlist frá Íslandi vekur athygli og gætir áhrifa hennar víða en til að svo megi vera áfram þarf að styrkja og styðja við bakið á þeim sem leggja allt í sölurnar og eru að koma sér og verkum sínum á framfæri af mikilli þrautseigju. Kraumur tónlistarsjóður leggur áherslu á að styðja af krafti og myndugleika við framgang tónlistarfólks hvort sem það er hér heima eða erlendis og vill með starfi sínu hlúa vel að grasrótinni og efla tónlistarlíf á sem fjölbreyttastan hátt með beinum styrkjum og faglegri ráðgjöf.

Sjóðnum bárust 131 umsókn og því var alltaf ljóst að Kraumur gæti aðeins stutt við hluta þeirra verkefna sem sótt var um stuðning fyrir enda er það stefna sjóðsins að styrkja fá verkefni en gera það á afgerandi hátt.

Hæsta styrk Kraums í ár hlýtur hljómsveitin Mono Town en hún hefur verið að gera garðinn frægan síðustu misserin. Sveitin hefur m.a. hitað upp fyrir hina goðsagnakenndu sveit The Pixies á tónleikaferð þeirra um Norðurlöndin og svo náði Mono Town einstökum árangri með útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu, In The Eye of the Storm, í samvinnu við tónlistarveituna Deezer. Mono Town mun nýta sér styrkinn til að kynna plötuna með öflugum hætti en einnig til að standa straum af kostnaði vegna fyrirhugaðra tónleikaferða.

Þungarokksveitirnar Sólstafir og Kontinuum fá styrk vegna tónleikaferða þeirra um Evrópu en báðar sveitirnar gefa út nýjar breiðskífur á árinu, starfa með erlendum útgefendum og eiga sér dygga aðdáendur víðsvegar um heiminn. Sólstafir sigla nokkra túra í ár undir sínum eigin fána sem aðalband (e. Headliner).

Nordic Affect hlýtur stuðning til að taka þátt í þremur virtum tónlistarhátíðum í Evrópu næsta haust en á svipuðum tíma kemur út nýr diskur þar sem sveitin leikur tónlist eftir íslensk kvennatónskáld. Markmið ferðarinnar er að kynna hópinn og nýjan disk fyrir erlendum hlustendum samtímatónlistar og ná að skapa sér nafn.

Möller Records er íslensk raftónlistarútgáfa sem fær styrk frá Kraumi til að ferðast vítt og breitt um landið í sumar og kynna margbreytilega og hugvíkkandi raftónlist fyrir landsmönnum. Með í för verða Futuregrapher, en Árni Grétar er jafnframt verkefnastjóri, Skurken, EinarIndra, bistro boy og fleiri vinir og velunnarar Möller. Eitt er víst að þetta verður rafmönguð tónleikainnrás sem kemur fólki í réttan gír.
Kraumur og Eistnaflug taka höndum saman og standa fyrir PR-námskeiði og fjölmiðlakynningu en þessi magnaða rokkshátíð fer fram í 10. sinn dagana 9. til 13. júlí á Neskaupstað.

Meðal annarra styrkþega eru Agent Fresco og Ragnheiður Gröndal sem stefna á Evrópu, Grísalappalísa og DJ Flugvél og Geimskip sem ætla að tæta og trylla á Íslandi, Cell7 sem fer með hljómsveit um landið, Rökkurró, Ólafur Björn Ólafsson og Gyða Valtýsdóttir sem kynna nýjar útgáfur sínar.

Sjötta árið í röð á Kraumur í samstafi við ísfirsku tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Á hátíðinni standa AFÉS og Kraumur fyrir poppfræðslurokkgreiningarfundi. Líkt og áður er reynt að kryfja ýmis mál sem tengjast tónlistargeiranum og síbreytilegu umhverfi hans en ávallt er reynt að hafa umræðuna skemmtilega. Allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis en umræðurnar eru ávallt fjölbreyttar og oftar en ekki árangursríkar.

ÚTHLUTUN 2014

PLÖTUGERÐ ÚTRÁS OG KYNNING – stuðningur og samstarf við listamenn og hljómsveitir á sviði plötuútgáfu, kynningar og markaðssetningar:
Samtals 1.650.000 kr.
Mono Town Kynning og markaðssetning 1.000.000 kr.
Ólafur Björn Ólafsson Kynning og útgáfutónleikar 350.000 kr.
Gyða Valtýsdóttir Kynning á nýrri plötu 300.000 kr.
ÚTRÁS – stuðningur & samstarf við listamenn og hljómsveitir : Samtals 3.350.000 kr.
Sólstafir og Kontinuum Tónleikaferð um Evrópu 1.000.000 kr.
Nordic Affect Tónleikahátíðir og kynning 800.000 kr.
Agent Fresco Evróputúr 2014 700.000 kr.
Ragnheiður Gröndal Tónleikaferðir um Evrópu 500.000 kr.
Rökkurró Útrás vegna þriðju plötu 350.000 kr.
INNRÁS – stuðningur & samstarf við listamenn og tónlistarhátíðir innanlands: Samtals 2.300.000 kr.
Grísalappalísa og
DJ Flugvél og Geimskip Íslandstúrinn 2014 500.000 kr.
Cell 7 ásamt hljómsveit Tónleikaferð um landið 500.000 kr.
Aldrei Fór Ég Suður 2014 Tónlistarhátíð á Ísafirði 500.000 kr.
Möller um landið Kynning á íslenskri raftónlist 500.000 kr.
Eistnaflug 2014 Fjölmiðlakynning og námskeið 300.000 kr.

7.300.000 kr.

ÖNNUR VERKEFNI KRAUMS 2014- Kraumslistinn í desember og Hljóðverssmiðjur Kraums í vor sem fela í sér fræðslu og handleiðslu í samstarfi við Músíktilraunir og þær hljómsveitir sem skipa fyrstu þrjú sætin í ár. Stefnan er að úthluta á ný seinna á árinu en tilkynnt verður um nýtt umsóknarferli með vorinu.

Frá stofnun Kraums hefur Aurora velgerðarsjóður lagt sjóðnum til 140 milljónir. Stjórn Auroru velgerðasjóðs hefur síðan 2007 úthlutað til verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkjunum Síerra Leóne og Mósambík svo fátt eitt sé nefnt.

______

Megintilgangur Kraums er að stuðla að og styrkja íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga tónlistarmenn. Yfirlýst stefna sjóðsins er að styrkja tiltölulega fá verkefni/listamenn, en gera það þannig að stuðningurinn sé afgerandi. Verkefnaval Kraums tekur mið að því að styrkir til listamanna og verkefna eru í flesta staði hærri og veglegri og þar af leiðandi færri yfir heildina.

Kraumur tónlistarsjóður, sem var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði, hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf – fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan. Markmið Kraums er að styrkja stöðu tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Kraumur vill styðja við og ýta undir nýsköpun og metnað á tónlistarsviðinu.

Frá því Kraumur hóf starfsemi sína hafa yfir eitthundrað listamenn, hljómsveitir og tónlistartengd verkefni hlotið stuðning frá sjóðnum, þar á meðal eru adhd, amiina, Anna Þorvaldsdóttir, Bang Gang, Bloodgroup, Celestine, Daníel Bjarnason, Dikta, Elfa Rún Kristinsdóttir, Extreme Chill Festival, Hjaltalín, Kammerkór Suðurlands, Lay Low, Melkorka Ólafsdóttir, Moses Hightower, Mr. Silla, Mugison, Nordic Affect, Of Monsters and Men, Ólöf Arnalds, Retro Stefson, Skálmöld, Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson, Sóley, Sólstafir, Sónar Reykjavík, Seabear, Snorri Helgason, Stelpur Rokka!, Trúbatrix hópurinn og Víkingur Heiðar Ólafsson. Kraumur hefur einnig haldið úti samstarfsverkefnum með Músíktilraunum Tónabæjar, Listahátíð í Reykjavík, Aldrei fór ég suður, Eistnaflug, ÚTÓN/IMX og fleiri aðilum.