Aurora velgerðarsjóður eykur framlag til Kraums

February 14, 2009

Stjórn Auroru velgerðarsjóðs tilkynnti þann 12. febrúar að Kraumur tónlistarsjóður fengi 20 milljón króna framlag til að styðja og styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar og til kynningar á verkum sínum.

Kraumur var stofnaður í ársbyrjun 2008 að frumkvæði Auroru velgerðasjóðs og var þá tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til tónlistarsjóðsins alls 50 milljónum króna í þrennu lagi á árunum 2008-2010.  Stjórn Auroru ákvað að bæta 5 milljónum króna við 15 milljóna króna framlag í ár, “enda hefur Kraumur sýnt og sannað að hans er þörf” eins og segir í tilkynningu frá stjórn Auroru.

Í tilkynningu Auroru segir jafnframt;

“Nærvera sjóðsins skiptir miklu máli í íslensku menningarlífi. Starfsemi Kraums er umfangsmikil og blómleg og sjóðurinn hefur víða komið við. Hann styrkti tónleika og tónleikaferðalög heima og heiman, aðstoðaði við markaðssetningu og stóð fyrir nýjum tónlistarviðurkenningum, Kraumsverðlaunum, svo nokkuð sé nefnt.

Framkvæmdastjóri og stjórn Kraums þakkar traustið sem starfsemi sjóðsins er sýnd. Það er frábært tækifæri að fá að takast á við nýtt starfsár Kraums af sama, ef ekki meiri, krafti en á liðnu upphafsári.

Stjórn Auroru velgerðasjóðs hefur úthlutað alls 111,5 milljónum króna í styrki til sex verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkjunum Síerra Leóne og Mósambík, þar af til fjögurra verkefna sem sjóðurinn hefur ekki styrkt áður.

Þetta er í annað sinn sem styrkir eru veittir úr Auroru velgerðasjóði sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir landslagsarkitekt og Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og Alfesca, stofnuðu 23. janúar 2007 og lögðu til einn milljarð króna. Samkvæmt stofnskrá er gert ráð fyrir að verja arði og vaxtatekjum sjóðsins til verkefna sem stuðlað geta að betra mannlífi á Íslandi og verkefna í þróunarlöndum.

Frekari upplýsingar: www.aurorafund.is

Á mynd; Ólafur Ólafsson, stjórnarmaður í Auroru velgerðasjóði, Sigurður Guðmundsson, stjórnarmaður í Auroru, Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Hlín Helga Guðlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðs Auroru, Eldar Ástþórsson, framkvæmdastjóri Kraums, tónlistarsjóðs Auroru,  Þórunn Sigurðardóttir, stjórnarmaður í Auroru og Ingibjörg Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Auroru. Einn styrkþeganna, Hugi Guðmundsson, býr í Kaupmannahöfn og var því ekki á samkomu Auroru í Iðnó þegar styrkjum var úthlutað.