Fögnuður í Vonarstræti

November 23, 2009

Kraumur, Hönnunarsjóður Auroru og Hönnunarmiðstöð Íslands fagna flutningi starfsemi sinnar í Vonarstrætið.

Hönnunarmiðstöð Íslands, Hönnunarsjóður Auroru og Kraumur tónlistarsjóður deila nú húsnæði í Vonarstræti 4b. Hönnunarmiðstöðin er á efri hæð hússins og Kraumur og Hönnunarsjóður Auroru deila með sér kjallararýminu.

Veglegt innflutningshóf var haldið í tilefni nýs hlutverk hússins föstudaginn 20. nóvember. Innsetning Andrew Burgess arkitekts setti svip á Vonarstrætið að utan. Letrið Copper Stencil sem teiknað er fyrir Hönnunarsjóð Auroru af Gunnari Þ. Vilhjálmssyni var gefið út. Ljósmyndasýning Harðar Sveinssonar helguð íslensku tónlistarlífi, Myndir og Mayhem, var enduropnuð í samvinnu við Kraum tónlistarsjóð.

Einnig komu fram hljómsveitirnar Sudden Weather Change og Nolo.

Margvísleg starfsemi hefur verið í húsinu að Vonarstræti 4B. Húsið tengist sögu verksmiðjuiðnaðar í Reykjavík og er teiknað af Pjetri Ingimundarsyni forsmiði. Magnús Th. S. Blöndahl smiður og athafnamaður byggði húsið árið 1928 sem verksmiðjuhús til brjóstsykurs- og konfektgerðar. Ári seinna var starfsemin aukin og frá 1929 rak Magnús Blöndahl þar kaffibrennslu samhliða sælgætigerðinni. Sælgætisgerð var rekin í húsinu allt til ársins 1967 þegar mikill bruni var á svæðinu og húsið skemmdist nokkuð.

Árið 1977 var búið að breyta húsnæði í skrifstofur, en kaffibrennslan var rekin í húsinu allt til ársins 1979, þegar vélarnar eyðilögðust af eldi. Um tíma var rekin heildverslun í húsinu en árið 1993 fékkst leyfi til að breyta því í íbúð og skrifstofu. Frá 1995 hafði Umhverfisráðuneytið húsnæðið á leigu og árið 2005 hófu foreldrasamtökin Vímulaus æska starfsemi í húsinu og rak þar Foreldrahús. Engin starfsemi hefur verið í húsnæðinu í síðastliðinn tvö ár, þar til nú. (heimild; Minjasafn Reykjavíkur, skýrsla 126).

Margvísleg starfsemi tengd íslenskri hönnun, arkitektúr og tónlist verður nú í aðalhlutverki í Vonarstræti 4b.