Vel heppnað Eistnaflug

August 8, 2010

Yfir þúsund manns sóttu tónlistarhátíðina Eistnaflug á Neskaupsstað í júlí. Kraumur studdi við vinnusmiðjur og tónleikahald íslenskra sveita á hátíðinni.

Rokkhátíðin Eistnaflug var haldin í Neskaupstað sjötta árið í röð dagana 8.-10. júlí. Undirbúningur hátíðarinnar hófst í ágúst 2009 og að honum stóðu Stefán Magnússon, Guðný Lára Thorarensen og Haukur Dór Bragason. Fleiri hendur og sjálfboðaliðar bættust síðan við vinnuna þegar nær dró hátíðinni sjálfri.

Miðasala á Eistnaflug 2010 gekk vel, en samtals sóttu yfir þúsund manns hátíðina. Hljómsveitarmeðlimir og sjálfboðaliðar voru síðan rétt tæplega 200. Þegar allt er talið saman má reikna með að um 1.200 manns hafi komið í Neskaupstað á Eistnaflug 2010.

Samkvæmt skýrslu frá hátíðarhöldurum gekk hátíðin “í nær alla staði vel og er fátt hægt út á að setja.”

“Lögreglan var afar ánægð með skipulag hátíðarinnar sem og gesti. Gestirnir skemmtu sér í bróðerni og vinskap, en það er það sem Eistnaflug snýst um. Þeir fengu þó að kenna á veðrinu aðfararnótt fimmtudagsins 8. júlí og voru sumir kaldir og hraktir með allt sitt hafurtask rennblautt. Viðbúnaðurinn var ekki kominn almennilega í gang þegar þarna var komið við sögu og er það eitthvað sem verður að bæta fyrir Eistnaflug 2011. (…)

Án styrktaraðila okkar og annarrar hjálpar hefði Eistnaflug aldrei orðið að veruleika. Við færum þeim innilegar þakkir: Egilsbúð, Flytjandi, Ölgerðin, Hildigunnur hjá Fjarðabyggð, Signý hjá Menningarsjóði Austurlands, Helgi hjá Sýslumanninum á Eskifirði, Úton, Kraumur, Tónlistarsjóður ríkisins, Lögreglan, Björgunarsveitin Gerpir, Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar og allt það góða fólk í Neskaupstað sem tekur Eistnaflugsförum opnum örmum.

Eistnaflug verður betra og stærra með hverju árinu sem og viðbúnaður þess, gæsla og gott orðspor. Á þeirri braut ætlum við að halda áfram.

Fyrir hönd Eistnaflugs og Millifótakonfekts ehf.,
– Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri
– Guðný Lára Thorarensen, dagskrárstjóri
– Haukur Dór Bragason, kynningarstjóri”

Kraumur tónlistarsjóður er ánægður með samstarfið við Eistnaflug 2010 og stoltur af stuðningi sínum við tónlistarhátíðina sem lið í Innrás sjóðsins, sem miðar að því að styðja við tónleikahald á landsbyggðinni og gefa hljómsveitum og listamönnum færi á að spila og kynna tónlist sína sem víðast innanlands.

Kraumur studdi við vinnusmiðjur og tónleikahald íslenskra sveita á Eistnaflugi 2010.

Rokkveisla í hjarta Austurlands (Kraumur.is) – http://kraumur.is/2010/07/08/rokkveisla-i-hjarta-austurlands/

Hlekkir
Vefsíða Eistnaflugs – www.eistnaflug.is
Facebook síða Eistnaflugs – www.facebook.com/pages/Eistnaflug