Kraumur flytur
Kraumur tónlistarsjóður flytur í Vonarstrætið.
Kraumur tónlistarsjóður flytur starfsemi sína af Klapparstíg 16 niður í kvosina, Vonarstræti 4a. Í kjallara hússins mun sjóðurinn deila aðstöðu með Hönnunarsjóði Auroru og mun rýmið vera nýtt fyrir margskonar starfsemi sjóðana tveggja. Á efri hæðinni er Hönnunarmiðstöð Íslands staðsett.
Stefnan er að Vonarstrætið geti hýst ýmsa fundi og uppákomur sem eru á vegum Kraums og Hönnunarsjóðsins, eða tengjast starfsemi þeirra.
Þriðjudaginn 3. nóvember mun nýtt heimili Kraums vera vettvangur fyrir vinnusmiðjur á vegum Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) um markaðsetningu tónlistarmanna á netinu. Það er Ariel Hyatt fjölmiðlaplöggari frá Cyber PR í New York sem hefur umsjón með smiðjunni, þar sem íslenskum listamönnum og hljómsveitum verða kynntir möguleikar um hvernig koma eigi sér og tónlist sinni á framfæri á netinu. Síðar um kvöldið heldur Ariel tölu á fyrsta fræðslukvöldi ÚTÓN í vetur sem haldið verður í Norræna húsinu.