Kraumslistinn kynntur á degi íslenskrar tónlistar
Kraumslistinn, úrvalslisti Kraumsverðlaunanna, kynntur í dag, 1. desember, á degi íslenskrar tónlistar.
Kraumsverðlaunin, plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs, verða afhent í áttunda sinn í ár. Venju samkvæmt þá birtir Kraumur úrvalslista verðlaunanna, Kraumslistann, í byrjun desember yfir þau verk sem þykja hafa skarað framúr í íslenskri tónlist á árinu. Kraumsverðlaunin sjálf verða svo afhent síðar í mánuðinum.
Kraumslistanum og Kraumsverðlaununum er ætlað að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra listamanna og hljómsveita með því að verðlauna og vekja sérstaka athygli á því sem er nýtt og spennandi – og þeim verkum sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika. Verðlaunin eru ekki bundinn neinni ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar.
Kraumslistinn 2015, úrvalslisti Kraumsverðlaunanna, er eftirfarandi:
- asdfgh – Steingervingur
- Dj flugvél og geimskip – Nótt á hafsbotni
- Dulvitund – Lífsins þungu spor
- Fufanu – A Few More Days To Go
- Gísli Pálmi – Gísli Pálmi
- Gunnar Jónsson Collider – Apeshedder
- Jón Ólafsson & Futuregrapher – Eitt
- Kristín Anna Valtýsdóttir – Howl
- Lord Pusswhip – Lord Pusswhip is wack
- Misþyrming – Söngvar elds og óreiðu
- Mr Silla – Mr Silla
- Muck – Your Joyous Future
- Myrra Rós – One Amongst Others
- Nordic Affect – Clockworking
- Ozy – Distant Present
- President Bongo – Serengeti
- Sóley – Ask The Deep
- Teitur Magnússon – 27
- Tonik Ensemble – Snapshots
- TSS – Meaningless Songs
- Vaginaboys – Icelandick
Allar íslenskar plötur sem komið hafa út á árinu eiga möguleika á að komast á Kraumslistann og hreppa Kraumsverðlaunin. Bæði plötur sem eru gefnar út á geisladisk og/eða vínyl, sem og útgáfur á netinu. Útgáfustarfsemi á netinu hefur færst mikið í vöxt og í ár eru fjölmargar íslenskar hljómplötur sem aðeins koma úr með þeim hætti, þó langflestar plötur Kraumslistans séu einnig fáanlegar á geisladisk og í mörgum tilvikum einnig á vínyl.
Það er von aðstandenda Kraumsverðlaunanna að Kraumslistinn og verðlaunin veki athygli á þeirri grósku og fjölbreytni sem einkennir íslenskt tónlistarlíf og plötuútgáfu. Tímasetning tilnefninga og úthlutunar Kraumsverðlaunanna er engin tilviljun og miðuð við jólagjafaflóðið, þegar tónistarlistamenn reiða sig hvað mest á plötusölu og ætla má að sóknarfæri séu fyrir íslenska tónlist að rata í fleiri jólapakkana, enda er tónlist góð og sígild jólagjöf.
Kraumslistinn, úrvalslisti Kraumsverðlaunanna, er valin af fimmtán manna dómnefnd sem skipað er fólki sem hefur margvíslega reynslu af því að fjalla um, spila og vinna með íslenska tónlist. Ráðið skipa: Árni Matthíasson (formaður), Alexandra Kjeld, Arndís Björk Ásgeirsdóttir, Arnar Eggert Thoroddsen, Andrea Jónsdóttir, Benedikt Reynisson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Heiða Eiríksdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Hildur Maral Hamíðsdóttir, Jóhann Ágúst Jóhannsson, María Lilja Þrastardóttir, Matthías Már Magnússon, Óli Dóri og Trausti Júlíusson.
Ráðið fór yfir rúmlega tvö hundrað útgáfur íslenskra listamanna og hljómsveita sem komu út árið 2015. Dómnefnd hefur nú hafið störf og sér um að velja 6 plötur af Kraumslistanum sem verðlauna skal sérstaklega og hljóta munu Kraumsverðlaunin.