Kraumsverðlaunin

Árleg plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs

Saga og verðlaun

Kraumsverðlaunin voru sett á laggirnar af Kraumi tónlistarsjóði árið 2008 í þeim tilgangi að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna.

“það er von aðstandenda viðurkenningarinnar að Kraumsverðlaunin og Kraumslistinn verði liðsauki fyrir íslenska listamenn og íslenska plötuútgáfu, og veki athygli á þeirri grósku og fjölbreytni sem ár hvert er fest disk, vínyl og stafrænni útgáfu hér á landi.” – Segir í fyrstu tilkynningu Kraums um verðlaunin

Tímasetning tilnefninga og úthlutunar Kraumsverðlaunanna var í upphafi miðuð við jólagjafaflóðið, þegar tónistarlistamenn reiða sig hvað mest á plötusölu og ætla má að sóknarfæri séu fyrir íslenska tónlist að rata í fleiri jólapakka.

Um skeið voru verðlaunin kynnt sem Kraumslistinn, en hin síðari ár hefur það heiti aðeins verið notað um úrvalslista verðlaunanna þar sem hljómplötur eru tilnefndar til sjálfra Kraumsverðlaunanna.

Kraumur vekur athygli á verðlaunaplötunum með margvíslegum hætti, og styður listamennina til kynningar á verkum sínum.

Sjóðurinn hefur jafnframt í mörgum tilvikum unnið að því að koma verðlaunatitlum áfram til ýmissa fagmanna í tónlistarbransansanum, starfsmanna tónlistarhátíða og blaðamanna. Síðari ár hefur sjóðurinn einbeitt sér að beinum peningastyrk til listamanna, til að aðstoða þá við kynningu á verkum sínum.

Kraumsverðlaunum fylgir enginn verðlaunagripur.