Rokkveisla í hjarta Austurlands

July 8, 2010

Tónlistarhátíðin Eistnaflug fer fram í Neskaupsstað dagana 8.-10. júlí þar sem yfir 30 hljómsveitir koma fram, auk þess sem boðið verður upp á vinnusmiðjur og tónleika utan hefðbundnar dagskrár í fyrsta sinn í sögu hátíðarinnar.

“Ef að þú manst eftir Eistnaflugi – þá varstu ekki þar”
– Guðmundur Óli Pálmason

“Eistnaflug? Betra en Arnarflug!”
– Magnús “Zombie”

Búast má við að íbúafjöldi Neskaupsstaðar tvöfaldist dagana 8.-10. júlí þegar tónlistarhátíðin Eistnaflug fer fram í bænum. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2005 og vaxið með hverju árinu. Nú er svo komið að Eistnaflug er orðin ein helsta tónlistarhátíð landsins. Yfir 30 hljómsveitir koma fram á Eistnaflugi um helgina, auk þess sem boðið verður upp á vinnusmiðjur og tónleika utan hefðbundnar dagskrá í fyrsta sinn í sögu hátíðarinnar.

Kraumur tónlistarsjóður styður við vinnusmiðjur og tónleikahald íslenskra sveita á Eistnaflugi 2010. Stuðningurinn og samstarfið er hluti af Innrásar-átaki sjóðsins til stuðnings tónleikahaldi innanlands. Fjölmargar hljómsveitir og listamenn hafa notið stuðnings og samstarfs í tengslum við Innrásina frá árinu 2008, má þar nefna; Amiina, Árstíðir, Benni Hemm Hemm, Benny Crespo’s Gang, Bloodgroup, Borko, Dr. Spock, Elfa Rún Kristinsdóttir, Elín Ey, Elíza Geirsdóttir Newman, Fabúla, FM Belfast, Melkorka Ólafsdóttir, Momentum, Morðingjarnir, Mógil, Mysterious Marta, Myrra, Njútón, Nögl, Pascal Pinon, Reykjavík!, Sign, Skátar, Svavar Knútur og Sykur.

Eistnaflug var fyrst haldin árið 2005 þegar Stefán Magnússon, sem leiddist rokkleysið eftir að hafa flutt til Neskaupstaðar, skipulagði tónleika með 14 hljómsveitum og bauð vinum sínum til Neskaupstaðar í lok sumarsins. Árið eftir var hátíðin haldin aðra helgina í júlí og sú hefð hefur haldist síðan. Eistnaflug hefur vaxað og dafnað með árunum, og getið sér góðs orðspor hérlendis sem erlendis. Eistnaflug byrjaði sem lítil metal-rokkhátíð er í dag 3-daga tónlistarhátíð sem samanstendur af ýmsum tónlistarstraumum og stefnum – þó rokktónlist af harðari gerðinni sé enn aðalsmerki hennar.

Fyrsta hátíðin stóð yfir eina kvöldstund og mættu um  50 manns, 300 manns mættu árið eftir þegar hátíðin stækkaði í 2-daga festival og árið 2008 tók hátíðin nokkrum stakkaskiptum þegar hún stóð í fyrsta sinn yfir í 3 daga og erlend hljómsveit (Contradiktion frá Þýskalandi) spilaði þar í fyrsta sinn. Gestir það árið voru 800 manns og í fyrra náði gestafjöldi nýjum hæðum þegar um 1.000 manns sóttu hátíðina. Í ár er búist við svipuðum fjölda og í fyrra, og þar sem einhverjir miðalausir gestir fylgja alltaf með í bæinn má búast við að íbúafjöldi Neskaupsstaðar (sem er um 1.400) nærri tvöfaldist því þessa helgi.

Yfir 30 hljómsveitir koma fram á Eistnaflugi 2010. Má þar nefna Dr. Spock, Mínus, Reykjavík!, Cliff Clavin, Saktmóðigur, In Memorium, Fortíð, Beneath, Momentum, Celestine, Sólstafir sem léku á nýafstaðinni Hróaskelduhátíð, Sororicide sem koma saman á ný og Kolrassa Krókríðandi sem snýr aftur eftir langt hlé með með Elízu Newman í fararbroddi. Erlendir gestir í dagskrá hátíðarinnar er eitt af flaggskipum þungarokksins; engir aðrir en Napalm Death frá Englandi.

Eistnaflug hefur getið sér gott orð fyrir vinalegt andrúmsloft og góða stemmningu. Hátíðin er haldin í Neskaupstað, hjarta Austurlands, nánar tiltekið í Egilsbúð. Gistiaðstaða er á tveimur tjaldsvæðum; hinu svokallaða ‘djammstæði’ við enda bæjarins og á fjölskyldutjaldstæðinu í hlíðinni ofan við miðbæinn. 18 ára aldurstakmark er á hátíðina sjálfa.

Forsala miða á midi.is og í verslunum Skífunnar og er verð í forsölu er aðeins 6.666 krónur. Miðar eru einnig seldir á Nesk 7.500 á Neskaupsstað.

Hlekkir
Vefsíða Eistnaflugs – www.eistnaflug.is
Facebook síða Eistnaflugs – www.facebook.com/pages/Eistnaflug