K tríó með tónleika um allt land

July 13, 2010

Innrás Kraums heldur áfram með tónleikahaldi um allt land. K tríó leikur á níu tónleikum á tíu dögum 12.-21. júlí.

Jazztríóið K Tríó leikur um þessar mundir allt land til að kynna sína nýjustu breiðskífu sína. Tónleikaferðin hófst í Sláturhúsinu á  Egilsstöðum og endar í Norræna húsinu í Reykjavík miðvikudaginn 21. júlí. Ferðin samanstendur af alls níu tónleikum á tíu dögum.

K tríó er skipuð; Kristján Martinsson píanó, Pétur Sigurðsson kontrabassi og Magnús Trygvason Eliassen trommur. Kristján stofnaði K trió ásamt Magnúsi og Pétri í janúar 2008 til þess að spila tónlist Kristjáns á útskrifartónleikum hans í FÍH. Samspilið small saman og tríóið ákvað að halda samstarfinu áfram og semja fleiri lög. Tríóið hélt tónleika á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst 2008 við góðar undirtektir.

Um miðjan september 2008 sigraði K tríó Young Nordic Jazz Comets keppnina. Í framhaldi af sigrinum gaf tríóið út sinn fyrsta disk og fór í stuttan túr til Norðurlanda (Winter Jazz) meðal annars á Nasjonal Jazzscene Norway, Rytmihäiriöklubi Helsinki, Christianshavns Beboerhus Kaupmannahöfn, Mariehamn Jazzfestival á Álandseyjum og Ylläs Jass og blús Lappland. Í apríl 2009 var Tríóið valið eitt af 4 evrópskum jazz sveitum til að spila í ,,EBU European Jazz Competition” á North sea jazz festeval í júlí.

Tónleikaferð K tríó um Ísland

  • 12. júlí Egilstaðir, Sláturhúsið kl. 20:00
  • 13. júlí Bakkafjörður, Skólinn á Bakkafirði kl. 20:00
  • 14. júlí Akureyri, Græni Hatturinn kl. 21:00
  • 15. júlí Húsavík, Gamli Baukur kl. 21:00
  • 16. júlí Ísafjörður, Edinborgarhúsið kl. 20:30
  • 17. júlí Patreksfjörður, Sjóræningjahúsið kl. 21:00
  • 18. júlí Búðardalur, Leifsbúð kl. 21:00
  • 19. júlí Akranes, Skrúðgarðurinn kl. 21:00
  • 21. mið Reykjavík Norræna húsið kl 20:30

Kraumur og Innrásin
Tónleikaferðin er hluti af Innrás Kraums tónlistarsjóðs. Innrásin er átak sem Kraumur setti á laggirnar í apríl 2008 til þess er að styðja hljómsveitir og tónlistarmenn við tónleikhald innanlands. Markmið Innrásarinnar er að auka við möguleika listamanna til tónleikahalds, gefa þeim færi á að koma sér og tónlist sinni á framfæri víðar en á höfuðborgarsvæðinu og efla tónlistarlíf á landsbyggðinni.

Fjöldi listamanna og hljómsveita hefur á síðustu tveimur árum leikið á tónleikum á landsbyggðini og má þar nefna Amiina, Árstíðir, Benni Hemm Hemm, Bróðir Svartúlfs, Celestine, Dr. Spock, Elfa Rún Kristinsdóttir, FM Belfast, Helgi Valur, Ljósvaki, Melkorka Ólafsdóttir, Miri, Mógil, Myrra, Njútón, Nögl, Pascal Pinon, Reykjavík!, Sign, Skakkamanage, Svavar Knútur, Sykur og Swords of Chaos.

Innrás Kraums kemur víða við í ár. Hljómsveitin Bloodgroup hefur þegar leikið víða um land í ár og heimsótt Færeyjar með stuðningi Innrásarinnar, Trúbatrix félagskapur tónlistarkvenna er að skipuleggja tónleikaferð sem fer af stað í ágúst og Kammersveit Carminu mun ráðgerir tvenna tónleika utan Reykjavíkur síðar í ár. Auk þess er Innrásin samstarfsaðili Eistnaflugs, LungA og fleiri tónlistarhátíða.