Kraumur úthlutar yfir 10 milljónum til tónlistarfólks og tónlistartengdrar starfsemi 2013
Kraumur tónlistarsjóður úthlutar í dag 10.4 milljónum til listamanna og verkefna sem eiga sér stað hér heima og að heiman árið 2013. Rúmlega tíu milljónum króna er varið til 16 verkefna á sviði innrásar og útrásar íslenskrar tónlistar en einnig er stuðlað að námskeiðum og fræðslu. Hæsta styrkinn í ár hlýtur Anna Þorvaldsdóttir tónskáld, eða tvær milljónir króna.
Starf og stuðningur Kraums tónlistarsjóðs við íslenskt tónlistarlíf heldur áfram af krafti og ljóst er af fjölda umsókna að tónlistarfólk kann að meta Kraum sem er sjálfstætt starfandi afl í íslensku tónlistarlandslagi. Í dag tilkynnti sjóðurinn stuðning við 16 verkefni. Verkefnin eru margbreytileg og metnaðarfull og endurspegla það afl og þann vöxt sem einkennir íslenskt tónlistarlíf og skapandi greinar.
Tónlist er fyrir margt löngu orðin ein þekktasta útflutningsvara þjóðarinnar og eru áhrif hennar mikil, þeirra gætir víða. Áherslan í starfi Kraums tónlistarsjóð er því í ár líkt og síðustu 5 ár að styðja af krafti við útrás tónlistarfólks en einnig að hlúa vel að grasrótinni og efla tónlistarstarf hér innanlands í formi fræðslu og tónleikahalds.
Alls bárust sjóðnum 146 umsóknir og ljóst að Kraumur gat aðeins stutt við hluta þeirra verkefna sem sótt var um stuðning fyrir í nýliðnu umsóknarferli enda yfirlýst stefna sjóðsins að styrkja fá verkefni en gera á afgerandi hátt.
Hæsta styrk Kraums í ár hlýtur Anna Þorvaldsdóttir tónskáld, en hún er einnig handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir verk sitt Dreaming. Styrkinn fær Anna til að hljóðrita ný verk til útgáfu í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og í flutningi CAPUT. Í kjölfar útgáfu nýrrar plötu nýtir Anna sér hluta styrksins til að kynna plötuna og verkin erlendis í samvinnu við öflug kynningarfyrirtæki og erlendar umboðsskrifstofur.
Þá fékk hljómsveitin Bloodgroup veglegan stuðning vegna tónleikaferðar þeirra um Evrópu og til Bandaríkjanna en þangað leitar einnig hugur Skúla Sverrissonar og Óskars Guðjónssonar sem í samstarfi við Mengi munu kynna plötuna The Box Tree ytra en hún var valin Djassplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Meðal annarra styrkþega eru Retro Stefson, Samúel J. Samúelsson Big Band, Angist, Hamrahlíðarkórinn, múm, Rauðasandur Festival, Stelpur Rokka! og KAMMER-Tónlistarhátíð. Járnbraut fær styrk en um er að ræða skapandi húsnæði þar sem m.a. má finna hljómsveitir á borð við Nolo, Heavy Experience og Oyama sem og hina framsæknu útgáfu Úsland.
Pascal Pinon og Blásaratríóið ætlar að ferðast hringinn og leika í kirkjum á meðan Borgar Magnason og Reykjavik Sinfonia taka þátt í flutning á nýrri óperu erlendis þar sem Ben Frost semur tónlistina. Extreme Chill Festival undir Jökli er styrkt annað árið í röð en þetta er hátíð sem breska dagblaðið The Guardian kaus eina af fimmtán athyglisverðustu tónlistarhátíðum í Evrópu 2012 sökum staðsetningar og umhverfis.
Síðast en ekki síst styrkir Kraumur Aldrei fór ég suður. Á hátíðinni stendur Kraumur fyrir poppfræðslurokkgreiningu í fimmta sinn í samvinnu við tónlistarhátíðina sem nú er haldin í 10 skiptið. Í rokkmálstofunni er er reynt að greina ýmis mál sem tengjast tónlistargeiranum og síbreytilegu umhverfi, slegið er á létta strengi en alvaran er aldrei langt undan. Allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis en umræðurnar eru ávallt fjölbreyttar og oftar en ekki árangursríkar. Við þetta má bæta að fundarstjórn og umræðuefni eru ávallt skemmtileg, engum mun því leiðast og svo er hressing að fundi loknum.
ÚTHLUTUN 2013
Kraumur tónlistarsjóður styður eftirtalin verkefni með fjárhagslegu framlagi sem og faglegri aðstoð og vinnu.
PLÖTUGERÐ ÚTRÁS OG KYNNING – stuðningur og samstarf við listamenn og hljómsveitir á sviði tónsmíða, plötugerðar og kynningar: Samtals 2.000.000 kr.
Anna Þorvaldsdóttir Plötugerð / Kynning 2.000.000 kr.
ÚTRÁS – stuðningur & samstarf við listamenn og hljómsveitir : Samtals 5.000.000 kr.
Skúli Sverrisson & Óskar Guðjónsson – Tónleikar og kynning 1.000.000 kr.
Bloodgroup – Tónleikaferðir til Evrópu og BNA 1.000.000 kr.
Angist – Ferðin til Heljar og Desertfest ofl. 600.000 kr.
Samúel J. Samúelsson Big Band – Tónleikaferð um Evrópu 600.000 kr.
Retro Stefson – Kynning og tónleikar erlendis 2013 500.000 kr.
múm – Tónleikaferð um Bandríkin 500.000 kr.
Borgar Magnason & Reykjavík Sinfonia – The Wasp Factory : Ný Ópera 400.000 kr.
Hamrahlíðarkórinn – Kynning á kórnum og starfi 400.000 kr.
INNRÁS – stuðningur & samstarf við listamenn og tónlistarhátíðir innanlands: Samtals 3.400.000 kr.
Rauðasandur Festival – Fjölskylduvæn tónlistarhátíð 500.000 kr.
KAMMER-Tónlistarhátíð – Tónleikaröð, námskeið og spuni 500.000 kr.
Járnbraut : Skapandi vettvangur – Listasetur, æfingarhúsnæði og hljóðver 500.000 kr.
Extreme Chill Festival 2013 – Rafmögnuð tónlistarhátíð undir jökli 500.000 kr.
Stelpur Rokka! – Rokksumarbúðir fyrir ungar stúlkur 500.000 kr.
Aldrei fór ég suður – Námskeið og fræðsla 500.000 kr.
Pascal Pinon og Blásaratríóið – Ferðast um landið og leikið í kirkjum 400.000 kr.
ÖNNUR VERKEFNI KRAUMS - samtals 2.300.000 kr. sem úthlutað verður seinna á árinu en þar er um að ræða skyndistyrki að hausti, Kraumslistann 2013 í desember og Hljóðverssmiðjur Kraums í vor sem fela í sér fræðslu og handleiðslu í samstarfi við Músíktilraunir og þær hljómsveitir sem skipa fyrstu þrjú sætin í ár.
SÓNAR REYKJAVÍK- Fyrr á þessu ári tilkynnti Kraumur tónlistarsjóður um tveggja ára samstarf við tónlistarhátíðina Sónar Reykjavík og var hátíðin styrkt um eina milljóna króna.
Það sem af er ári hefur Kraumur tónlistarsjóður styrkt íslenskt tónlistarlíf um 11.4 milljónir króna.
______
Megintilgangur Kraums er að stuðla að og styrkja íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga tónlistarmenn. Yfirlýst stefna sjóðsins er að styrkja tiltölulega fá verkefni/listamenn, en gera það þannig að stuðningurinn sé afgerandi. Verkefnaval Kraums tekur mið að því að styrkir til listamanna og verkefna eru í flesta staði hærri og veglegri og þar af leiðandi færri yfir heildina. Þetta er í samræmi við álit fagráðs Kraums sem og niðurstöðu árangursmats Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands sem gert var fyrir Kraum og kynnt var fyrir ári.
Kraumur tónlistarsjóður, sem var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði, hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf – fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan. Markmið Kraums er að styrkja stöðu tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Kraumur vill styðja við og ýta undir nýsköpun og metnað á tónlistarsviðinu.
Frá því Kraumur hóf starfsemi sína hafa yfir eitthundrað listamenn og hljómsveitir hlotið stuðning frá sjóðnum, þar á meðal eru adhd, amiina, Anna Þorvaldsdóttir, Bang Gang, Bloodgroup, Celestine, Daníel Bjarnason, Dikta, Eistnaflug, Elfa Rún Kristinsdóttir, Hjaltalín, Kammerkór Suðurlands, Lay Low, Melkorka Ólafsdóttir, Moses Hightower, Mr. Silla, Mugison, Nordic Affect, Of Monsters and Men, Ólöf Arnalds, Retro Stefson, Skálmöld, Sóley, Sólstafir, Seabear, Snorri Helgason, Trúbatrix hópurinn og Víkingur Heiðar Ólafsson. Kraumur hefur einnig haldið úti samstarfsverkefnum með Músíktilraunum Tónabæjar, Listahátíð í Reykjavík, Aldrei fór ég suður, ÚTÓN/IMX og fleiri aðilum.
Í fyrra var prófuð sú nýjung í starfsemi Kraums að veita lægri styrki til verkefna þegar að hausta tók, veita nokkra Skyndistyrki. Þetta ferli er ekki auglýst sérstaklega en safnað er saman erindum tónlistarfólks og farið yfir þau mánaðarlega. Þessi stuðningur er hugsaður til að brúa bilið og hjálpa listamönnum til að grípa tækifæri sem koma upp með stuttum fyrirvara eða á þeim tíma sem enga styrki er að fá og margir sjóðir eru tómir. Skyndistyrki eru veittir síðasta ársfjórðung ársins og skila ber erindum til framkvæmdastjóra.