Oyama landa plötusamningi í Japan
Hljómsveitin Oyama hefur haft hljótt um sig undanfarið en hefur þó sannarlega haft í nógu að snúast
Fyrir utan að hafa verið talsvert á farandsfæti það sem af er ári með tónleikahaldi á hátíðum á borð við Air d’Islande í Frakklandi og Eurosonic í Hollandi hefur sveitin unnið hörðum höndum að sinni fyrstu breiðskífu sem áætlað er að komi út síðar á árinu, en hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu frá því að Oyama gáfu út stuttskífuna I Wanna í byrjun síðasta árs.
Væntanlega plötu vinna þau með Pétri Ben og hafa þegar tekið upp grunna í Sundlauginni hljóðveri auk þess sem þau taka upp parta sjálf.
En það er ekki allt: Oyama skrifuðu nýverið undir plötusamning við japanska plötufyrirtækið Imperial Records, en fyrirtækið er stór hluti af JVC hljómflutningsfyrirtækinu.
Samningurinn við Imperial felur meðal annars í sér tónleika þar ytra og stendur sveitin nú í ströngu við að safna fé fyrir fyrirhugaða tónleikaferð í Japan.
Liður í því eru tónleikar næstkomandi fimmtudag (24. apríl) á Gauknum, en ásamt Oyama koma fram hljómsveitirnar kimono og Sin Fang.
Húsið opnar klukkan 21, tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 22 og kostar 1500 krónur inn.
Forsmekk af nýjum lögum Oyama má heyra í eftirfarandi klippum frá KEXP stöðinni sem teknar voru upp á Airwaves:
https://www.youtube.com/watch?v=TnG_ggam5xs
https://www.youtube.com/watch?v=JHK910HniuY
Oyama er ein af fjölmörgum hljómsveitum sem eiga vinnuaðstöðu í menningarsetrinu Járnbraut sem Kraumur styrkti árið 2013 til góðra verka.
https://www.facebook.com/oyamaband
http://oyamaband.bandcamp.com/
- ljósmynd: magnusandersen