Vel heppnaðar Hljóðverssmiðjur
Hljóðverssmiðjur Kraums haldnar í fyrsta sinn á Flateyri.
Hljóðverssmiðjur Kraums voru haldnar í hljóðverinu Tankinum á Flateyri dagana 11.-18. júní. Mikil ánægja var með hvernig til tókst, bæði meðal þátttakenda sem og þeirra sem tóku að sér kennslu að vinna með hljómsveitunum.
Nokkur lög voru kláruð í hljóðverinu og vel heppnað námskeið um upptökur, lagasmíðar og fyrstu skrefin í tónlistarbransanum haldið. Óvæntir tónleikar voru svo haldnir á Flateyri meðal listamannanna laugardagskvöldið 13. júní.
Hljómveitirnar sem tóku þátt í smiðjunum voru Bróðir Svartúlfs [mynd], Ljósvaki og The Vintage – sem skipuðu þrjú efstu sætin á Músíktilraunum 2009, en meðal verðlauna á Músíktilraunum í ár var þáttaka í smiðjunum.
Leiðbeinendur voru Mugison (Örn Elías Guðmundsson) tónlistarmaður, Páll Ragnar Pálsson tónlistarmaður með BA í Tónsmíði frá Listaháskóla Íslands og er að ljúka mastersnámi í vor frá Estonian Academi of Music og Tanks-foringinn Önundur Hafsteinn Pálsson, tónlistarmaður, upptökumaður og tónlistarkennari á Ísafirði og Flateyri.
Markmiðið með Hljóðverssmiðjum Kraums er að styðja við grasrótina í íslensku tónlistarlífi, miðla reynslu og gefa hljómsveitunum tækifæri á að taka upp efni sem nýst gæti við kynningu á sér og sinni tónlist. Í smiðjunum gefst jafnframt tækifæri til að semja ný lög og vinna saman.