Metfjöldi umsókna í umsóknaferli Kraums
Alls bárust 233 umsóknir í umsóknarferli Kraums tónlistarsjóðs sem lauk í síðustu viku. Aldrei fyrr hafa jafn margar umsóknir borist í umsóknarferli sjóðsins, en alls bárust 193 umsóknir í síðasta umsóknarferli – sem þá var nýtt met.
Kraumur notast ekki við umsóknareyðublöð, en allar umsóknir skulu innihalda yfirlit yfir verkefnið sem sótt er um, upplýsingar um markmið þess og fjárhagsáætlun – auk þess sem mælst var til þess að hljómsveitir og listamenn skili ferilskrá og tónlist.
Umsóknirnar sem borist hafa Kraumi að þessu sinni eru af ýmsum toga, og úr öllum geirum tónlistar. Flestar eru umsóknirar eru frá hljómsveitum og listamönnum, sem sækja um stuðning og samstarf fyrir margvísleg verkefni sín á árinu. Má þar nefna tónleikhald, kynningu á verkum sínum, lagasmíðar og plötugerð, auk óhefðbundnari verkefna. Einnig er að finna umsóknir frá skipuleggjendum ýmissa viðburða, verkefnisstjóra námskeiða og verkefna sem hafa með dreifingu og kynningu á íslenskri tónlist að gera.
Kraumur tónlistarsjóður, sem var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði, hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf – fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan. Markmið Kraums er að styrkja stöðu tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Kraumur vill jafnframt styðja við og ýta undir nýsköpun og metnað á tónlistarviðinu.
Frá því Kraumur hóf starfsemi sína hafa yfir áttatíu listamenn og hljómsveitir hlotið stuðning frá sjóðnum og má þar nefna Bang Gang, Bloodgroup, Celestine, Daníel Bjarnason, Dikta, Elfa Rún Kristinsdóttir, Hjaltalín, Lay Low, Melkorka Ólafsdóttir, Mugison, Nordic Affect, Njútón tónlistarhópur, Ólöf Arnalds, Seabear, Trúbatrix hópurinn, Víkingur Heiðar Ólafsson. Kraumur hefur einnig haldið úti samstarfsverkefnum með Músíktilraunum Tónabæjar, Listahátíð í Reykjavík, Aldrei fór ég suður og fleiri aðilum.
Auk beins stuðnings við einstaka listamenn og hljómsveitir – og verkefni þeirra á sviði plötuútgáfu, tónleikahalds og kynningar á sér og verkum sínum innanlands sem utan – hefur Kraumur hrundið af stað og starfrækt eigin verkefni til breiðari stuðnings í tónlistarlífinu; m.a. Innrásinni til stuðnings tónleikhaldi innanlands, Kraumslistanum til að vekja athygli og styðja við íslenskri plötuútgáfu og þeim titlum sem þykja skara fram úr í frumleika og metnaði – og svokölluðum Hljóðverssmiðjum í samvinnu við Músíktilraunir, þar sem ungum og upprennandi listamönnum og hljómsveitum gefst kostur á að taka upp nýtt efni undir leiðsögn og fá ráð um næstu skref í ferlinum hjá reyndari tónlistamönnum.