Veislufjör 2012 – 7 tónleikar á 7 dögum

June 21, 2012


Veislufjör 2012 er kvöldskemmtun með lifandi tónlist, uppistandi og gleði þar sem 7 staðir verða heimsóttir á 7 dögum um allt land dagana 21-27 júní en það eru Snorri Helgason, Mr. Silla og Hugleikur Dagsson sem eru með í för.

Þann 21. júní mun skemmtilestin Veislufjör leggja af stað í vikulanga hringferð um landið. Með í för verða Snorri Helgason og hljómsveit hans, hljómsveitin Mr. Silla og spéfuglinn þjóðkunni, Hugleikur Dagsson.

Mr Silla kemur til með að leika lög af væntanlegri plötu, Snorri leikur safn laga af sínum tveim sólóplötum auk nýrra efnis og Hugleikur Dagsson fer með gamanmál og stýrir Veislufjörinu. Markmið Veislufjörsins er einfalt; að skemmta landanum, frændfólki hans og vinum á 7 tónleikum á 7 skemmtilegum stöðum um allt land.

Fyrsti viðkomustaður Veislufjörsins verður Pakkhúsið á Höfn í Hornafirði að kvöldi 21. júní en svo fylgja Seyðisfjörður, Húsavík, Flateyri, Patreksfjörður, Flatey á Breiðafirði og Hafnarfjörður í kjölfarið. Á Seyðisfirði mun hópurinn sameinast Prinspóló, Ojba Rasta og Jónasi Sigurðssyni og Ritvélunum á tónlistarhátíðinni Partíþokunni sem mun standa yfir alla helgina í Herðubreið.

Það eru Kraumur, Cheap Jeep og Rás 2 sem eru sérstakir verndarar Veislufjörs 2012.

Miðasala fer fram við dyr á tónleikakvöldum. Miðaverð 2000 kr.

Veislufjör 2012:

21. júní – Pakkhúsið – Höfn í Hornafirði / Hefst kl 22:00
22. júní – Partíþokan, Herðubreið – Seyðisfirði / Hefst 21:00
23. júní – Gamli Baukur – Húsavík / Hefst kl 22:00
24. júní – Vagninn – Flateyri / Hefst kl 20:00
25. júní – Sjóræningjahúsið – Patreksfirði / Hefst kl 20:00
26. júní – Hótel Flatey – Flatey á Breiðafirði / Hefst kl 20:00
27. júní – Bæjarbíó – Hafnarfirði / Hefst kl 20:00

Miðasala fyrir Bæjarbíó.

Miðasala á Partíþokuna á Seyðisfirði fer fram á midi.is og á Hótel Aldan.

Um Snorra Helgason

Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason hefur á undanförnum árum skapað sér gott orð í tónlistarheiminum bæði innanlands sem utan. Tónlist Snorra er nokkurs konar þjóðlagapoppbræðingur þar sem sterkar melódíur og kassagítarinn eru í forgrunni. Tónlist Snorra hefur verið líkt við söngvaskáld eins og Neil Young, Paul Simon og Harry Nilsson sem voru upp á sitt besta á árunum í kringum 1970.

Snorri hefur verið starfandi sem tónlistarmaður í u.þ.b. 5 ár og hefur gefið út 4 plötur, 2 með hljómsveitinni Sprengjuhöllin og tvær sólóplötur, I’m Gonna Put My Name On Your Door (2009) og Winter Sun(2011) sem allar hafa fengið mikið lof gagnrýnenda. Lag Snorra, Verum í Sambandi, vann meðal annars til íslensku Tónlistarverðlaunanna fyrir lag ársins vorið 2008.

Hljómsveit Snorra Helgasonar er síbreytilegt fyrirbæri og núna skipa hana einungis tveir einstaklingar ásamt Snorra, þau Sigurlaug Gísladóttir(múm & Mr. Silla) sem syngur og spilar á ukulele og Guðmundur Óskar Guðmundsson(Hjaltalín, Borko, Heiðurspiltar o.fl.) sem spilar á rafbassa og barítóngítar.

River á KEXP

Mockingbird á KEXP

Um Mr. Silla

Mr Silla er hljómsveit sem er stofnuð af söngkonunni og gítarleikaranum Sigurlaugu Gísladóttur (múm, mr silla & mongoose) og Gunnari Erni Tynes (múm, Andhéri) sem farartæki fyrir lagasmíðar Sigurlaugar en hún er einnig aðalsöngkona sveitarinnar. Þau kölluðu til liðs við sig gítarleikarann Gylfa Blöndal (kimono, Borko), bassaleikarann Halldór Örn Ragnarsson (Seabear), gítar- og hljómborðsleikarann Kristinn Gunnar Blöndal (Bob Justman, Botnleðja, Ensími) og trymbillinn Magnús Trygvason Eliassen (amiina, Sin Fang, ADHD). Gunnar Örn leikur á bassa, hljómborð og gítar auk þess sem að hann sér um upptökustjórn og eftirvinnslu. Hljómsveitin hyggur á útgáfu hljómplötu í sumar.

One Step á KEXP

Up/Down á KEXP

Um Hugleik Dagsson

Hugleikur Dagsson fæddist á Akureyri árið 1977.
Fyrstu tuttugu árin læddist hann meðfram veggjum og las Spider-man.
Árið 2002 útskrifaðist hann úr LHÍ og svo byrjaði hann að gefa út kúkabrandara í bókum. Kerskni hans smitaðist svo útí leikrit, sjónvarp og uppistand.