Úrvalslisti Kraums 2013 kynntur
Öldungaráð Kraums hefur lokið störfum og tilnefnt 20 plötur á Úrvalslista Kraums en þann 18. desember næstkomandi verður tilkynnt hvaða 6 plötur af þessum tuttugu koma til með að skipa Kraumslistann 2013. Öldungaráðið vann mikið og gott starf en yfir 170 nýjar íslenskar útgáfur voru teknar fyrir.
Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru. Viðurkenna og vekja sérstaka athygli hér heima og erlendis á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.
Verðlaunaplötur – Tilnefning og val
Framkvæmd Kraumslistans 2013 fer fram með þeim hætti að níu manna dómnefnd útnefnir 20 plötur á Úrvalslista Kraums en við Úrvalslistanum tekur svo 20 manna dómnefnd og velur hún bestu plöturnar í leynilegri kosningu þannig að eftir standa 6 verðlaunaplötur.
Dómnefnd Kraumsverðlaunanna er skipuð fólki sem hefur mikla reynslu af því að hlusta á og fjalla um íslenska tónlist á ýmsum sviðum. Formaður dómnefndar er Árni Matthíasson.
Í Öldungaráði, sem vann að forvalinu, áttu sæti ásamt Árna Matthíassyni: Benedikt Reynisson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, María Lilja Þrastardóttir, Ólafur Halldór Ólafsson, Ragnheiður Eiríksdóttir, Trausti Júlíusson, Valdís Thor og Þórunn Edda Magnúsdóttir.
Úrvalslisti Kraums 2013 – listinn er birtur í stafrófsröð:
– Benni Hemm Hemm – Eliminate Evil, Revive Good Times
– Cell7 – Cellf
– Daníel Bjarnason – Over Light Earth
– Dj. flugvél og geimskip – Glamúr í geimnum
- Futuregrapher, Gallery Six & Veronique – Crystal Lagoon (EP)
– Grísalappalísa – Ali
– Gunnar Andreas Kristinsson – Patterns
– Jóhann Kristinsson – Headphones
– Just Another Snake Cult – Cupid Makes A Fool of Me
– Lay Low – Talking About The Weather
– Mammút – Komdu til mín svarta systir
– Múm – Smilewound
– Per:Segulsvið – Tónlist fyrir Hana
– Ruxpin – This Time We Go Together
– Samúel J. Samúelsson Big Band – 4 hliðar
– Sin Fang – Flowers
– Strigaskór nr. 42 – Armadillo
– Tilbury – Northern Comfort
– Úlfur – White Mountain
– Þórir Georg – Ælulykt
Tilkynnt verður hvaða plötur vinna sér sæti á Kraumslistanum miðvikudaginn 18. desember.
- – -
Kraumslistinn – Viðurkenning og verðlaun
Kraumslistinn, sem bar nafnið Kraumsverðlaunin í fyrsta sinn sem hann var valinn í lok árs 2008, snýst fyrst og fremst um að styðja við og vekja athygli á öllum þeim plötum sem dómnefnd velur til Kraumslistans, frekar en að beina kastljósinu að einni sérstakri verðlaunaplötu. Nú hefur níu manna dómnefnd lokið störfum og valið 20 plötur á Úrvalslista Kraumslistans en stærri dómnefnd velur svo af þeim lista bestu plötur ársins.
Aðstandandi Kraumslistans er Kraumur tónlistarsjóður sem er sjálfstætt starfandi sjóður á vegum Auroru velgerðarsjóðs. Kraumur hefur það að meginhlutverki að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan.
Það er von aðstandenda Kraumlistans að verðlaunin verði liðsauki fyrir íslenska listamenn og íslenska plötuútgáfu, og veki enn frekari athygli á þeirri grósku og fjölbreytni sem einkennir íslenskt tónlistarlíf. Tímasetning tilnefninga og úthlutunar Kraumsverðlaunanna er miðuð við jólagjafaflóðið, þegar listamenn reiða sig hvað mest á plötusölu og ætla má að sóknarfæri séu fyrir íslenska tónlist að rata í fleiri jólapakka enda er tónlist góð og sígild jólagjöf.
Kraumur mun leggja metnað við að styðja alla þá titla sem valdir verða á Kraumslistann, frekar en að einblína á eina einstaka verðlaunaplötu. Umgjörðin í kringum verðlaunaafhendinguna er í lágmarki og frekar reynt að einbeita sér að auknum stuðningi við plöturnar. Kraumur mun styðja við Kraumslistaplöturnar og jafnframt auka möguleika listamannanna bakvið þær til að koma verkum sínum á framfæri erlendis með því að kaupa ákveðinn fjölda af plötunum af tónlistarfólkinu eða útgefendum þeirra og dreifa þeim til ýmissa starfsmanna tónlistarbransans erlendis (tónlistarhátíðir,útgáfur, umboðsskrifstofur, fjölmiðlar o.s.frv.).
Kraumslistinn var settur á fót í þeim tilgangi að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna – viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika. Markmið Kraumslistans:
– Að kynna og styðja við íslenska plötuútgáfu, þá sérstaklega verk ungra listamanna og hljómsveita.
– Verðlauna og vekja athygli á því sem er nýtt og spennandi í íslenskri tónlist ár hvert á sviði plötuútgáfu.
– Verðlauna og vekja athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.
– Kraumslistinn hefur ekkert aldurstakmark, en markmið hans er engu að síður að einbeita sér að verkum yngri kynslóðar íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita sem eru að ryðja sér til rúms.
– Stefna Kraumslistans er að leggja áherslu á alla þá titla sem dómnefndin velur, frekar en að einblína á eina einstaka verðlaunaplötu.
– Kraumslistinn er ekki bundinn neinni ákveðinni tónlistarstefnu og honum fylgja engir undirflokkar.
Dómnefnd starfar í samræmi við hugmyndafræði verðlaunanna og markmið. Enginn í dómnefndinni þiggur laun fyrir vinnu sína. Regluverk Kraumslistans má finna á heimasíðu Kraums: www.kraumur.is
___
Mynd: Ásgeir Trausti átti sæti á Kraumslistanum 2012 ásamt Ojba Rasta, Hjaltalín, Retro Stefson, Moses Hightower og Pétri Ben