Kraumur kveður sér hljóðs

April 1, 2008

Fyrstu verkefni Kraums sem og stuðningur hins nýja sjóðs við tónlistarmenn og hljómsveitir voru kynnt síðdegis í dag, 1. apríl, í æfingahúsnæði nokkurra hljómsveita að Smiðjustíg 4B.

Kraumur, nýr sjálfstætt starfandi sjóður og starfsemi sem hefur það að markmiði að efla íslenskt tónlistarlíf, hefur kynnt sín fyrstu verkefni og stuðning við unga íslenska tónlistarmenn og hljómsveitir. Á yfirstandandi starfsári mun Kraumur meðal annars greiða leið tónlistarmanna til tónleikahalds á landsbyggðinni, sem og styðja við metnaðarfull verkefni tónlistarmanna með beinum hætti.

Stærstu framlög Kraums til listamanna að þessu sinni fara í stuðning við Mugison, Víking Heiðar Ólafssona og Amiinu og metnaðarfull verkefni þeirra á árinu. Tónlistarmennirnir Elfa Rún Kristinsdóttir og Ólöf Arnalds og hljómsveitirnar Dikta, FM Belfast, Celestine og Skakkamanage (sem er ein þeirra sveita sem hafa æfingaðstöðu á Smiðjustíg 4B) hljóta jafnramt fjárhagsstuðning og ráðgjöf í tengslum við gerð nýrra hljómplatna á árinu.

Eldar Ástþórsson, framkvæmdarstjóri Kraums, kynnti einnig til leiks þrjú eigin verkefni Kraums sem sjóðurinn mun vinna að á yfirstandandi starfsári; Innrásina – sem hefur það að markmiði að auðvelda ungu tónlistarfólki tónleikahald á landsbyggðinni, Hljóðverssmiðjur til að efla grasrótina og gefa hljómsveitum og listamönnum færi á að taka upp sín fyrstu lög undir ráðgjöf reyndari listamanna og Kraumsverðlaunin til stuðnings plötuútgáfu og auka tækifæri listamanna kringum útgáfu á tónlist sinni.

Meðal viðstaddra við athöfnina voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mennamálaráðherra, sem talaði um mikilvægi stuðnings við íslenskt tónlistarlíf, Þórunn Sigurðardóttir, formaður stjórnar Kraums og stjórnarmaður í Auroru velgerðarsjóði, sem gerði grein fyrir markmiðum sjóðsins og Eldar Ástþórsson, framkvæmdarstjóri Kraums, sem kynnti fyrstu verkefni hans og stuðning. Einnig voru viðstödd hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttur landslagsarkitekt og Ólafur Ólafsson stjórnarformaður Samskipa, en stofnun Kraums byggir á samþykkt stjórnar velgerðasjóð þeirra Auroru, sem fjármagnar starfsemi Kraums.

Kraumur er nýr sjálfstætt starfandi sjóður sem settur var á laggirnar í upphafi árs af Aurora velgerðasjóði. Sjóðurinn og starfsemi hans hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan.

Kraumur – tónlistarsjóður er þriggja ára tilraunaverkefni sem stofnaður var í ársbyrjun og samkvæmt núverandi áætlun lýkur í lok árs 2010. Aurora lagði nýja sjóðnum til 20 milljónir króna árið 2008, 15 milljónir króna 2009 og aftur 15 milljónir króna 2010 eða alls 50 milljónir króna.

Beinn stuðningur við listamenn

Kraumur styður eftirfarandi listamenn til góðra verka á árinu. Stuðningur er í formi fjárhagslegs styrks ásamt tilheyrandi ráðgjöf og aðstoð þar sem því er komið við. Framkvæmdastjóri Kraums er listamönnum til halds og trausts og annast tengsl sjóðsins við samstarfsaðila og fylgir því eftir að markmiðum samstarfs og stuðnings sé náð.

Mugison
Tónleikahald og útrás á erlendum vettvangi

Örn Elías Guðmundsson, Mugison, uppskar laun erfiðisins með útgáfu á meistaraverkinu Mugiboogie í fyrra. Hljómplatan toppaði bæði sölulista og árslista tónlistarspekúlanta hérlendis, og nú hyggur meistari Mugison á frekari landvinninga með púkann. Útgáfa er fyrirhuguðu í Evrópu og Norður-Ameríku í vor, þar sem tónleikhald gegnir lykilhlutverki í kynningu. Kraumur mun styðja við Mugison og útrás hans með myndarlegum hætti.

Í tengslum við útgáfu á Moogiboogie á alþjóðlegum vettvangi hyggur Mugison á tónleika víðsvegar á Norðurlöndunum (m.a. Hróaskelduhátíðinni), Þýskalandi, Frakkland, Ítalíu og víðar í Evrópu, Bandaríkin og Kanada (tónleikaferð með Queens of the Stone Age). Stuðningur miðast við að gera tónleikana mögulega með beinum stuðningi við Mugison og hljómsveit hans. Meðlimir í hljómsveit Mugison eru; Arnar Gíslasson trommur, Guðni Finnson bassi, Pétur Þór Ben gítar og Davíð Þór Jónsson hammond/píanó.
Upphæð: 4.000.000,- kr

Víkingur Heiðar Ólafsson
Tónleikahald, kennsla og kynning í framhaldsskólum
Víkingur Heiðar er að ljúka framhaldsnámi við Julliard tónlistarháskólann og hefur hlotið einstaka dóma fyrir leik sinn. Stuðningurinn við tónlistarferil Víking Heiðars miðar jafnframt að því að gefa framhaldsskólanemum tækifæri á að kynnast og komast í tæri við tónlistarfluttning hans. Gert er ráð fyrir nokkrum tónleikum og samstarfi við framhaldsskóla um framkvæmd þeirra – en að öðru leyti er stuðningur Kraums við Víking og meðleikara meginstoð verkefnisins. Auk þess sem Víkingur leikur á píanóið mun Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, útskýra verkin og opna nemendum leiðir að því að njóta klassískrar tónlistar.
Upphæð: 1.500.000,- kr

Amiina
Tónleikahald á landsbyggðinni

Það eru spennandi tímar framundan hjá Amiinu. Eftir að hafa gefið út sína fyrstu hljómplötu, hina einstöku Kurrr, bæði hérlendis og á alþjóðavettvangi í fyrra, tekur nú við áframhaldandi vinna og kynning á plötunni, gerð kvikmyndatónlistar fyrir myndir John Crowley og Kit Hui og tónleikaferðir með Sigur Rós. Telja má tónleika Amiinu hérlendis á fingrum annarar handar. Breyting verður á því í ár, því með stuðningi Kraums er sveitinni m.a. gert kleift að gera að veruleika áætlanir sínar um tónleikaferð um Ísland. Amiina eru; Hildur Ársælsdóttir, Edda Rún Ólafsdóttir, Maria Huld Markan Sigfúsdóttir og Sólrún Sumarliðadóttir.
Upphæð: 1.200.000,- kr


Celestine / Dikta / Elfa Rún Kristinsdóttir
/ FM Belfast / Skakkamanage / Ólöf Arnalds

Framkvæmda- og vinnustuðningur tengd hljómplötugerð
Þrátt fyrir að tilheyra ólíkum tónlistarstefnum og straumum eiga þessir tónlistarmenn og hljómsveitir það sameiginlegt að vera vinna að nýjum hljómplötum í ár. Á meðan Celestine, Dikta, Skakkamanage og Ólöf Arnalds eru með sína aðra plötu smíðum eru Elfa Rún Kristinsdóttir og FM Belfast að vinna að sínum fyrstu hljómplötum. Það er von Kraums að þessi stuðningur nýtist viðkomandi listamönnum vel við þá vinnu sem fylgir lagasmíðum, æfingum og upptökum. Auk fjárframlags verður listamönnunum veitt stuðningur í formi ráðgjar og samvinnu þar sem því verður komið við. Ekki loku skotið fyrir áframhaldandi samstarf við þessa listamenn á næsta ári.
Upphæð: 500.000,- kr hver hljómsveit / listamaður (samtals 3.000.000)

Kraumsverkefni

Eigin verkefni Kraums:

Innrásin – Tónleikastuðningur Kraums
Verkefnið miðar að því að ýta undir og efla tónleikahald á landsbyggðinni og öfugt. Hugmyndin að baki þessu starfi er m.a. sú staðreynd að stundum virðist auðveldara fyrir listamenn og hljómsveitir að spila erlendis, en hérlendis – t.a.m. í Kaupmannahöfn frekar en á Egilstöðum. Lítill stuðningur er í dag við þá sem vilja reyna fyrir sér með tónleikhald á landsbyggðinni. Markmiðið með Innrásinni er að brúa þetta bil – og auka við fjölbreytni og möguleika ungra listamanna til tónleikahalds. Stuðningurinn verður í formi æfingastyrkja, ferða- og græjustuðnings.  Jafnframt verður stefnt á að búa til gagnagrunn yfir tengiliði sem nýst geta listamönnum við skipulagningu tónleika úti á landi. Markmiðið er stuðningur við tónlistarlíf í landinu og við listamennina beint með því að auka við tækifæri þeirra við útbreiðslu listar sinnar, fjölbreytni í tónleikahaldi og tekjumöguleikum.

Hljóðverssmiðjur
Stuðningur við grasrótina. Upprennandi listamönnum gert kleift að komast í stúdíó með faglegri upptökustjórn og ráðgjöf reyndari listamanna. Framkvæmd er þannig háttað að listamanni/hljómsveit er gefið tækifæri á þátttöku og veru í stúdíó í tiltekin tíma. Hugmyndir eru uppi að upptökuferlið fari fram á landsbyggðinni. Afraksturinn yrði fullklárað efni sem listamaðurinn á sjálfur og getur nýtt eftir hentugleika, t.d. til útgáfu (t.d. á netinu), nýtt kynningarskyni eða dreift á útvarpsstöðvar.

Kraumsverðlaunin
Það er gamall og góður siður að velja bestu plötur ársins. Með Kraumsverðlaununum er þessi leið farin, en með það að markmiði að styðja við útgáfur ungra íslenskra hljómsveita og listamanna og auka við möguleika þeirra í kjölfar útgáfunnar. Hvernig? Kraumur mun skuldbinda sig til að versla 100 stk af öllum plötum sem útnefndar verða til verðlaunana (sem því miður er í sumum tilvikum hátt hlutfall heildarsölu). Þessi eintök mun sjóðurinn sjá um að senda út og dreifa á starfsmenn tónlistarbransans erlendis eins og tónlistarhátíðir, umboðsskrifstofur, plötuútgáfur o.s.frv. Með þessu er verið að auka við möguleika viðkomandi listamanns á alþjóðavettvangi. Verðlaunin munu ná til allrar tegundir tónlist, en hafa það að markmiði að verðlauna það sem er nýtt og spennandi í íslenskri tónlist.