Tónleikar í Íslensku óperunni

December 22, 2008

Jólarokk í Íslensku óperunni, sunnudaginn 28. desember. Fyrir alla aldurshópa.

Nokkrar af efnilegustu hljómsveitum Íslands hafa sameinað krafta sína og ákveðið að halda stórtónleika í Íslensku óperunni þann 28. desember næstkomandi. Þessu framtaki gæti verið lýst sem einskonar árshátíð tónlistarlífsins á Íslandi, en allar sveitirnar hafa verið áberandi uppá síðkastið.

Fram koma; For a Minor Reflection gaf út sína fyrstu plötu, ‘Reistu þig við, sólin er komin á loft…’ í fyrra og eru nýkomnir heim úr 3ja vikna tónleikaferðalagi með Sigur Rós. Ólafur Arnalds hefur verið á tónleikaferð erlendis meira og minna allt árið og vekur sífellt meiri athygli utan landsteinanna, loksins kominn aftur til landsins. Ultra Mega Technobandið Stefán gaf út sína fyrstu plötu ‘Circus’ í ár og hefur skapað sér orðspor fyrir einstaka frammistöðu á tónleikum. XXX Rottweiler hundar halda áfram að valda usla með beittum lögum á borð við “Reykjavík Belfast”. Retro Stefson gaf nýverið út frumraun sína ‘Montana’ sem hlaut Kraumsverðlaunin 2008, tilnefndir sem bjartasta vonin á Íslensku Tónlistarverðlaununum.

Miðasala fer fram í verslunum Skífunnar og á Midi.is. Miðaverð er 1.200 kr. í forsölu, en 1.500 við hurð á tónleikadag. Húsið opnar klukkan 19.30 og verða miðar seldir frá klukkan 14:30 í anddyri Íslensku óperunnar.

Kraumur styður tónleikana og kemur að undirbúningi þeirra ásamt Seltjarnarnesbæ.