Kraumur verðlaunar hljómsveitir Músíktilrauna
Kraumur verðlaunar hljómsveitirnar sem lenda í fyrstu þrem sætunum á Músíktilraunum 2009 með plássi í Hljóðverssmiðjum Kraums og Tanksins á Flateyri.
Hljómsveitakeppnin og tónlistarhátíðin Músíktilraunir hefur verið einn helsti vettvangur ungra íslenskra tónlistarmanna til að koma sér og tónlist sinni á framfæri í yfir 25 ár. Listi hljómsveita og listamanna sem stigið hafa á svið á þessum árlega tónlistarviðburði er langur, en meðal sigurvegara síðustu ára eru hljómsveitirnar Jakobínarína, Mammút og Agent Fresco.
Kraumur styður við sigurvegara Músíktilrauna 2009 og sveitirnar sem lenda í 2. og 3. sæti með plássi í Hljóðverssmiðjum Kraums og Tanksins á Flateyri [mynd]. Um er að ræða eina vika í hljóðverinu, samtals 70 upptökutíma með hljóðmanni, auk leiðbeininga og kennslu frá reyndari listamamönnum. Gisting innifalin.
Markmiðið með hljóðverssmiðjunum er að styðja við grasrótina í íslensku tónlistarlífi, miðla reynslu og gefa þeim tækifæri á að taka upp efni sem nýst gæti hljómsveitinni við kynningu, t.a.m. dreifingar á netinu og til útvarpsstöðva, og/eða sem byrjun á upptökum á breiðskífu.
Undankvöld Músíktilrauna fara fram í Íslensku Óperunni, Ingólfsstræti 2a, 101 Rvk. Undankvöldin verða á eftirfarandi dögum: 27.mars, 28.mars, 29.mars og 30.mars og hefjast öll kl. 19.00.
Úrslitakvöldið verður haldið laugardaginn 4.apríl í Listasafni Reykjavíkur, og opnar húsið kl 17. Rás 2 mun vera með beina útsendingu frá kvöldinu. Miðasala er hafin í Hinu Húsinu,Pósthússtræti 3-5. Aðgangseyrir er 1000 kr.
Vefur Músíktilrauna: www.musiktilraunir.is
Vefur Tanksins: www.tankurinn.com