Ég stend á skýi

August 11, 2010

Tónlistarráðstefna og fræðsla Kraums á Aldrei fór ég suður 2010 – rokkhátíð alþýðunnar á Ísafirði

Kraumur tónlistarsjóður og aðstandendur tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður héldu í sameiningu ráðstefnu og fræðslunámskeið um íslenska tónlist, þróun hennar og væntingar föstudaginn 2. apríl á Ísafirði. Þetta er í annað sinn sem Kraumur og skipuleggjendur hátíðarinnar leggja krafta sína saman með þessum hætti og líkt og í fyrra skiptið fór viðburðurinn fram í Edinborgarhúsinu samhliða hátíðinni.

Þátttakendur að þessu sinni voru um 60 manns, aðallega tónlistarmenn sem komu fram á Aldrei fór ég suður hátíðinni en auk þeirra voru margir áhugamenn um íslenska tónlist, heimamenn og gestir sem tóku virkan þátt í umræðunum.

Í ár voru málefni um hagsmuni tónlistarmanna mjög hugleikin, tónlistarútgáfa og það umhverfi sem menn búa við í dag! Utan um dagskrána hélt einn skipuleggjenda Aldrei fór ég suður, Kristján Freyr Halldórsson. Dagskráin var byggð af þremur meginpallborðum og voru 3 manns boðaðir í hvert pallborð. Umræðurnar voru opnar í báðar áttir og tóku allir mikinn þátt í skemmtilegum umræðum. Ráðstefnan og námskeiðið var í ár undir yfirskriftinni “Ég stend á skýi” sem flestum fannst viðeigandi…!

Dagskráin:

  1. ALLIR ERU Í FÍNU FORMI

    Fyrsta umræðuefni dagsins var hin stafræna útgáfa sem tröllríður öllu. Er stafræn útgáfa fullgild útgáfa? Til að ræða þetta efni og reyna að svara þessum stóru spurningum voru fengin þau Haukur Viðar Alfrðsson  (í hljómsveitinni Morðingjum), María Rut Reynisdóttir (frá Gogoyoko) og Örn Elías (Mugison).

    Yfirskriftin var “Allir eru í fínu formi” og þar vitnað í Stuðmenn og Björgvin Halldórsson.

    Er stafræn útgáfa að verða viðurkennd útgáfa?
    Mugison reið á vaðið og sagði frá sinni reynslu en hann hóf að selja síðustu stóru plötu sína á netinu og bauð þar uppá niðurhal og fisíska útgáfan kæmi í framhaldi í pósti. Hann vildi meina að það hafi farið fram úr björtustu vonum, hann hafði talið að fáir þyrðu að nota netið á þennan hátt. Staðreyndin væri einfaldlega sú að miðlarnir hafa breyst svo hratt og iPod orðinn t.a.m. mjög eðlileg eign fólks.

    Haukur Morðingi taldi sinn áhangendahóp alls ekki að versla þeirra stöff á netinu, ekki vegna vankunnáttu frekar vegna þess að annar vettvangur hentar betur. Hann sjálfur notar vefinn ekki mikið til að kaupa tónlist.

    María Rut frá Gogoyoko upplýsti ráðstefnugesti um starfsemi Gogoyoko sem vakið hefur gríðarlega athygli. Vefurinn hefur vaxið gríðarlega og voru um 12.000 skráðir notendur á þessum tíma. Salan er að aukast og má segja að um 85% virkra tónlistarmanna séu með efni á vefnum. Að sama skapi er að aukast notkun vefjarins í Skandinavíu.

    Úr sal bárust spurningar um iTunes og hvers vegna sú þjónusta sé ekki í boði hér á landi. Hér eru IP tölur blokkaðar og forsjármenn tala um lítið markaðssvæði. Ráðstefnugestir töldu frekar að hagsmunamálin séu að flækja frekar og orsaka ekkert aðgengi hér.

    – Mugison hefur auðvitað selt gríðarmagn af plötum á netinu en peningarnir liggi alls ekki þar. Það er frekar að selja plötur og annan varning á tónleikum sem telur mun frekar.

    – Kristján Freyr skýtur því inn hvort það sé ekki áhyggjuatriði að ungt fólk í dag þekki ekki annað en að fá tónlist fría á netinu, margir nota frítt niðurhal á lagi í markaðssetningu sinni. Í framhaldi er spurt hvort mögulegt sé að “stór plata” sé að verða úrelt fyrirbæri og fólk hlusti bara á lag og lag hér og þar.

    – María segir ljóst að ungt fólk sé reiðubúið að greiða fyrir tónlist ef það veit að greiðslan skili sér til tónlistarmannsins. Einnig segir hún að unglingar séu ekki eini hópurinn sem er á vefnum, það kom glöggt í ljós þegar Hjálmar gáfu út plötu fyrir jólin. Þar sást líka að vefsalan kom ekki í veg fyrir að salan á plötunni sjálfri gengi vel. Á síðasta ári dróst sala á plötum á Íslandi um 4% á meðan netsala jókst umfram fisíska sölu á Bretlandi.

    – Haukur kom með þá hugmynd að menn gæfu út plötur sínar sem aðeins eitt lag (1 track) og kemst þá enginn upp með að stela bara einu lagi.

    – Mugisonsagðist hafa prófað að gefa allt stöffið sitt frítt í gegnum netið og þáði í staðinn netföng til að byggja upp tengslanet. Þar liggja mikil verðmæti. Mikilvægt að byggja upp gott samband við áhangendur sína.

    – María nefndi að tími svokallaðra stórstjarna í tónlist sé liðin og fleiri eigi uppá pallborðið, það se einmitt netinu að þakka. En þó að vefurinn sé þetta sterkur þá er jafnmerkilegt að vínillinn sé orðinn mjög vinsæll aftur.

    Þarna mynduðust gríðarlega áhugaverðar umræður og vakti inngrip Gríms Atlasonar mikla athygli. Hann benti á að símafyrirtækin fengju alltof miklar tekjur af allri þeirri tónlist sem fólk nálgast á netinu, það eru þessi fyrirtæki sem raunverulega eru að græða á tónlist í dag. Réttast væri að þau gæfu til baka á einhvern hátt og einnig ættu þau kannski að sjá til þess að opna megi fyrir aðgengi á Itunes og þau rukki þá fyrir notkunina.

    Útgangspunktur þessarar umræðu var kannski sá að við lifum á millibilstímum þar sem ekki er búið að fullslípa hvernig sölu á tónlist á internetinu skuli vera háttað. Hún er þó að þróast í rétta átt og öll form tónlistar færast nær miðjunni.

  2. HVAR ERU PENINGARNIR MÍNIR?

    Hvernig er hagsmunum tónlistarmanna varið? Mikið hefur verið skeggrætt í minni hópum hvort þrfi að hrista upp í verkalýðsbaráttunni. Til að tæpa örlítið á þessum málum fengum við Högna Egilsson (Hjaltalín), Hall Jónsson (Bloodgroup) og Steinþór Helga (útgefanda og umboðsmann Hjaltalín).

    Hvar eru peningarnir mínir, kvað skáldið Einar Örn Benediktsson Sykurmola úr Ghostigital.

    – Kristján Freyr spurði hvort sú þráláta mýta sem væri uppi um að takmarkaður hópur valinkunnra poppara væru áskrifendur af stórum summum svokallaðra STEF-gjalda og fjárúthlutana annarra félaga ætti við rök að styðjast. Eða eru tónlistarmenn almennt illa upplýstir og þess vegna ekki að nýta rétt sinn?!

    – Steinþór taldi hvort tveggja vera rétt. Annars vegar er kerfið afar flókið og  alls ekki aðgengilegt, sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki mikla reynslu.

    Útvarpsstöðvar skila inn til STEFS svokölluðum spilunarlistum en þar er á reiki hvort allt sé að koma þangað inn. Er það einungis partur af dagskrárgerð RÚV og Bylgjunnar og lítið annað?! Það virtist koma fram í máli Ólafs Páls Gunnarssonar á Rás 2 , á ráðstefnukvöldi ÚTÓN  á dögunum, að  alls ekki allt sem spilað er hjá þeim skli sér inn til STEFS.

    – Högni vill meina að yngri tónlistarmenn geri ekki of mikið í því að sækja rétt sín og kjör. Þeir eru jafnvel miklu virkari í spilamennsku en fá ekkert greitt. Þar kemur inn í dæmið að tónlistarmenn fylli ekki út tónleikaskýrslur eftir tónleika sína. Á móti kemur að staðirnir þurfi að greiða gjöld inn til STEFS en enginn sækir þá. Hvað verður um þessa peninga er ekki nógu skýrt. Svo virðist sem til sé samningur en svo er til “betri” samningur.

    – Hallur benti á að STEF væri auðvitað hagsmunafélag tónlistarmanna en félagið væri því miður ekki nægilega aðgengilegt, heimasíðan afar flókin og kerfið á allan hátt óskiljanlegt. Þar eru rangar áherzlur.

    – Steinþór ræddi um öll þessi félög hér á landi og önnur aðildarfélög: STEF, FTT, FÍH, NCG, ASCAP, SESAC, PRS, PPL… Svo er Samtónn hattur yfir öll félögin. Þetta væri of mikið og brýnt að skerpa línurnar. Svo vantar inn í dæmið félag sem heldur utan um flutningsrétt.

    – Grímur Atlason benti á úr sal að áherslurnar væru vissulega rangar. T.a.m. fengju lítil sveitarfélög úti á landi það oft óþvegið frá félaginu og þyrfti að borga himinháar fjárhæðir fyrir litlar uppákomur.

    – Kristján benti líka á að staðir af öllu tagi fengju orðsendingu frá STEFI ef  þeir auglýstu uppákomu einhvers staðar. Hinsvegar fengju tónlistarmenn aldrei áminningu um að skila inn tónleikaskýrslum, þá er þær uppákomur mjög oft auglýstar í blöðum.

    – Högni benti á að eitthvað væri gruggugt við þessar úthlutanir. Sér til stuðnings nefndi hann lag með Sprengjuhöllinni sem var vinslæasta lagið á Íslandi um langa hríð en hafi ekki skilað nema smárri upphæð í vasa höfundana.

    Lóst var að hægt var að ræða þessi mál endalaust og mönnum var heitt í hamsi þó svo að umræðan hafi aldrei farið á háa C-ið.

  3. VIÐ GERUM OKKAR, GERUM OKKAR, GERUM OKKAR, GERUM OKKAR BESTA!

    Í þriðja og síðasta umræðugrundvelli okkar þennan dag ræddum við saman um hvernig landslag tónlistariðnaðurinn hefur skapað sér á Íslandi. Það er ljóst að tónlist skipar stórt hlutverk hér á landi og út a við. Talið er t.a.m. að það sem erlendir ferðamenn sækja hingað til lands sé einna helst landslagið eða auðnin og í öðru sæti er það tónlist og menning hverskonar. En hvernig er að „vinna“ við tónlist á Íslandi?

    Til þess að svara þessu fengum við Grím Atlason (sveitastjóra í Dalabyggð og umboðsmann FM Belfast og Retro Stefson), Birgi Örn Sigurjónsson (Bigga Bix tónlistarmann) og Láru Rúnars (tónlistarmann og innkaupastjóra Skífunnar)

    – Biggi sem býr á Ísafirði var að gefa út sína fyrstu plötu á dögunum. Hann getur ekki ímyndað sér né hefur hann væntingar um að vinna við tónlist. Fæstir gera það hér á landi og hafa það frekar sem sitt tómstundagaman.

    – Lára bætir við að ungir listamenn hendi sér oftar en ekki út í djúpu laugina og reyna að svamla að bakkanum án þess að vita réttu leiðina endilega.

    – Kristján bætir því við að það sé hugsanlega kostir og gallar við þá staðreynd. Það borgar sig alltaf að hafa leiðsögn en hinsvegar er það örugglega ástæðan fyrir því hversu framarlega við erum í menningu og listum sú staðreynd að við erum ekki að velta hlutunum mikið fyrir okkur, gerum bara!

    – Biggi er spurður hvernig það er að sinna tónlistinni á landsbyggðinni en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir það engum vandkvæðum bundið, hann er nýbúinn að gefa út plötu og fékk henni dreift hjá útgáfu í Reykjavík og svo noti hann ferðir sínar suður til að spilaog kynna sig með einhverju móti. Svo er það auðvitað internetið sem er til staðar í dag en var ekki áður, það hefur minnkað heiminn.

    – Kristján Freyr spyr Grím Atlason hvort við getum borið okkur saman við nágrannaþjóðir og hvernig tónlistarumhverfið er í þeim samanburði.

    – Grímur hefur ferðast mikið uppá síðkastið og kynnst því umhverfi sem er í boði í Evrópu og Skandinavíu. Grímur skrifaði mjög fína grein á bloggsíðu sína á Eyjunni um þessi mál, greinin nefnist „Lifi tónlistin og Evrópa“ 04. Mars 2010, http://blog.eyjan.is/grimuratlason/2010/03/04/lifi-tonlistin-og-evropa/.

    Þar segir m.a. „..Út um alla Evrópu eru tónleikastaðir sem taka á móti listamönnum með gistingu, mat, góðum aðbúnaði og launum fyrir spilamennskuna. Hljómsveitir, sem eru að byrja í bransanum, njóta styrkja þannig að þær geti flutt sköpun sína og gert eitthvað uppbyggilegt. Hið vonda Evrópusamband styrkir spilastaðina þannig að þeir getir starfað árið um kring. Þeir eru ekki aðeins í stóru borgunum heldur líka í minni bæjum og jafnvel úr leið. Það er nefnilega skilningur á því að menning er hluti lífsgæða sem eru manneskjunni jafn mikilvæg og saltfiskur og skyr.”

    Okkur Íslendingum hefur ekki gengið vel í útrás með margt annað en menninguna. Bókmenntir voru okkar helstu afurðir hér áður en síðustu tvo áratugi hefur tónlistin skilað okkur meiri verðmætum en flestir gera sér grein fyrir. Hér er líka verið að tala um peningaleg verðmæti. Þrátt fyrir þetta leggjum við nær ekkert til þessarar greinar. Hljómsveitir sem eru að reyna að hasla sér völl hérlendis og erlendis njóta engra eða smánarlega lágra styrkja. Tónleikastaðir í Reykjavík skipta flestir um kennitölur á nokkurra missera fresti. Tónleikar á landsbyggðinni eru sjaldgæfur munaður og meistarar eins og Haukur á Græna hattinum eru upp á náð og miskunn leigusalanna komnir“.

    Grímur segir það skjóta skökku við að margar aðrar greinar skuli fá meira fjármagn en menning og listir, t.a.m. landbúnaður sem skilar ekki eins miklum tekjum og tónlist og menning. Hann segir jafnframt grátlegt á meðan hljómsveitir, jafnvel óþekktar, skuli ávallt fá greiðslur fyrir spilamennsku á stöðum í Evrópu þurfi íslenskar hljómsveitir að punga út greiðslum til að fá að spila á sumum stöðum. Oft þurfi jafnan að útvega hljóðkerfi og slíkt einnig. Í Danmörku sé virkur sjóður þar sem skemmtistaðir fá jafnan úthlutað úr til að greiða hljómsveitum fyrir spilamennsku.

    – Lára hefur unnið í Skífunni í nokkur ár og séð um innkaup fyrir þær verslanir. Nú sé hinsvegar að draga til tíðinda því Skífan mun loka verslun sinni við Laugaveg í sumar. Sú verslun er sú stærsta á Íslandi og það sé eflaust mikið reiðarslag fyrir tónlistarmenn og framleiðendur. Lára segir að tónlistarmenn þurfi enn frekar að vera á tánum til að lifa af eða að geta sinnt listinni. Menn þurfi að spila mikið til að kynna sig, selja inn á tónleika, selja ýmiskonar markaðsefni, boli og slíkt og reiða sig síður á mikla plötusölu. Enda ekki mikil plötusala í dag. Annars finnst Láru ekki vera mætt nógu vel á tónleika hér á landi.

    – Kristján vill meina að við megum vera heppin hér. Bæði er fólk duglegt að kaupa íslenska tónlist og það hafi virkilega aukist að fólk mæti á tónleika sérstaklega eftir efnahagshrunið.

    – Birgir tekur undir með tónleikamenningu. Fólk kunni vel að meta að það sé margt í boði. Biggi vill einnig undirstrika það að tónlistarmenn megi ekki gleyma því að ferðast út á land. Það sé mikilvægt að kynna tónlist sína allan hringinn en ekki bara í miðborg Reykjavíkur.

    – Grímur vill að menntamálaráðuneytið stuðli að því að Félagsheimilin verði nýtt betur í því samhengi. Rekstraraðilar þeirra húsa eiga að fá stærri fjárframlög til að reka þau hús með myndarskap, láta þau ekki grotna niður og geta aukinheldur gert vel við þá skemmtikrafta sem vilja heimsækja þessa staði.

    – Kristján tekur undir orð Gríms og segir mikilvægt fyrir alla byggð á landinu að geta tekið þátt í menningartengdri ferðamennsku. Félagsheimilin eru kannski undirstaðan að því öllu. Að lokum minnir hann einnig á að samkoman sem hann ávarpar sé stödd á hátíð sem spratt fram af einstaklingsfrumkvæði sem hefur gert mikið fyrir tónlist og menningu á Vestfjörðum.

  4. SAMANTEKT

    Það var vel mætt á þessa ráðstefnu og námskeið okkar í ár. Bæði barst hróður síðasta málþings fyrir ári síðan og einnig hafði þetta verið vel kynnt í bænum. Það var því góð blanda af bæjarbúum, tónlistarmönnum sem spiluðu á hátíðinni og öðrum gestum. Allir þeir sem sátu í sal tóku virkan þátt í umræðunum frá byrjun, enda ítrekaði fundarstjóri það strax að þetta ætti ekki að vera formleg fundarsköp með þungum fyrirlestrum.

    Málefnin sjálf voru stór og því ekki mörg. Þau þurftu líka mikla umræðu og margar skoðanir komu fram. Stafræna útgáfan er auðvitað mjög hugleikin öllum í þessum iðnaði og morgunljóst að við lifum á miklum umbrotatímum í tónlistarútgáfu. Einnig fengum við fróðlega yfirferð á hagsmunabaráttunni. Menn hafa greinilega fengið mikla og aukna fræðslu í kjölfar fyrirlestrarkvölda hjá Útflutningsráði íslenskrar tónlistar. Fundarmenn höfðu það að orði.

    Það sem sat einna helst í mönnum eftir fundinn voru þeir punktar sem komu fram um stafrænt niðurhal og símafyrirtækin. Flestir voru mjög heitir í kjölfar þeirrar umræðu. Einnig hafði grein Gríms og hans úttekt á tónlistarlífinu í Evrópu mikil áhrif á mannskapinn.

    Á meðan fundi stóð fengu fundarstjóri og Örn Elías þau tíðindi að flugvél sem innihélt stóran hluta þeirra tónlistarmanna sem áttu að skemmta seinna um kvöldið hafi ekki farið af stað. Það fór um fundargesti því hátíðin var í húfi. Það var því ljóst að menn myndu yfirgefa fundarsalinn til þess að mæta á krísufund vegna slæms veðurs.

    Þegar fundi var slitið var öllum fundargestum boðið í plokkfiskveislu í Tjöruhúsið í Neðstakaupstað og fóru því flestir fagnandi úr salnum beint upp í rútu. Þess má einnig geta að krísufundurinn fór vel og Hjálmar, Ingó og veðurguðir mættu á sínum fjallabílum seinna um kvöldið og náðu að spila. Hinsvegar komust Pollapönk aldrei vestur.

    Lokaorðin hljóta að innihalda þakkarorð til þeirra sem lögðu hönd á plóg fyrir þetta málþing, sem bar yfirskriftina “Ég stend á skýi” og er þar auðvitað vitnað í ísfirðinginn Helga Björnsson sem svo sannarlega lét sig ekki vanta á hátíðina í ár sem endranær. Skipuleggjendum Aldrei fór ég suður, öllum sem tóku þátt í pallborðunum, öllum þátttakendum í sal og síðast en ekki síst samstarfs- og stuðningsaðilanum Kraumi-tónlistarsjóði sem hafði veg og vanda að því að gera okkur þetta kleift.

    Benjamín Mark Stacey og Kristján Freyr Halldórsson rituðu samantekt.