TÓNLIST … ER TÓNLIST

December 1, 2012

TÓNLIST … ER TÓNLIST: GREINAR 1999 – 2012, EFTIR ARNAR EGGERT THORODDSEN KEMUR ÚT Í DAG, 1. DESEMBER, Á DEGI ÍSLENSKRAR TÓNLISTAR

Arnar Eggert Thoroddsen hefur um langt árabil verið einn mikilvirkasti tónlistarblaðamaður landsins. Í Morgunblaðinu hefur hann fjallað kerfisbundið um íslenska jafnt sem erlenda tónlistarmenningu, í pistlum, viðtölum, gagnrýni og úttektum ýmiskonar. Hér er samankomið úrval greina frá árabilinu 1999 – 2012 en þessi fyrsti áratugur nýrrar aldar hefur reynst mikill umbrotatími í íslenskri dægurtónlist.

Ástríða Arnars fyrir umfjöllunarefninu er tilfinnanleg, stíll hans snarpur og kímileitur, fullur eldmóðs en um leið fræðandi og áleitinn. Hér er á ferðinni einstök heimild um tónlistarmenningu á Íslandi, frá manni sem hefur mundað pennann í fremstu víglínu í meira en áratug.

Um höfund:

Arnar Eggert Thoroddsen fæddist í Reykjavík árið 1974. Hann hóf að skrifa um tónlist vorið 1999 og hefur iðkað það síðan, að meginstofni til í gegnum Morgunblaðið (en allar greinarnar í safni þessu eru þaðan). Skrif hans hafa þó birst víðar, m.a. í erlendum bókum og bloggum. Hann hefur þá setið í fjölda dómnefnda hérlendis sem erlendis, stýrt útvarps- og vefvarpsþáttum, skipulagt tónleika og tónleikaraðir, haldið erindi í skólum og verið ráðgefandi aðili um tónlist í sjónvarpi sem útvarpi. Arnar rekur þá eigið vefsetur, arnareggert.is, þar sem hugleiðingar hans um hina æðstu list birtast.

Arnar býr í Edinborg ásamt konu sinni og tveimur börnum en þar leggur hann stund á meistaranám í tónlistarfræðum við Edinborgarháskóla.

Aðrar bækur eftir sama höfund

-Umboðsmaður Íslands: Öll trixin í bókinni (2007) ásamt Einari Bárðarsyni
-100 bestu plötur Íslandssögunnar (2009) ásamt Jónatani Garðarssyni

Bók Arnars Eggerts Thoroddsen, “Tónlist … er tónlist: Greinar 1999 – 2012″, kemur út 1. desember, á degi íslenskrar tónlistar en Kraumur tónlistarsjóður styrkti höfund verksins við útgáfuna.

Dreifing er í höndum Kongó ehf.