Pascal Pinon ásamt blásaratríói á hringferð um landið

June 26, 2013

Hljómsveitin Pascal Pinon og Blásaratríó fara hringferð um landið 25.-30. júní. Frítt er inn á alla tónleika og athygli skal vakin á því að bein útsending verður frá tónleikunum í Húsafellskapellu á heimasíðu Pascal Pinon næstkomandi laugardag.

Hljómsveitinni Pascal Pinon heldur í tónleikaferðalag umhverfis landið ásamt blásaratríói skipuðu núverandi og fyrrverandi nemendum úr Tónlistarskóla Reykjavíkur. Sveitin mun alls spila í 6 kirkjum á öllum landshlutum, en dagskráin lítur svona út:

25. 06. 13 – Útskálakirkja, Garður

26. 06. 13 – Breiðabólsstaðakirkja, Fljótshlíð

27. 06. 13 – Hafnarkirkja, Höfn í Hornafirði

28. 06. 13 – Húsavíkurkirkja, Húsavík

29. 06. 13 – Húsafellskapella, Húsafell (beint á netinu – pascalpinon.com)

30. 06. 13 – Grundarfjarðarkirkja, Grundarfjörður

- Allir tónleikar hefjast kl. 20:00

Verkefnið er styrkt af Kraumi tónlistarsjóði sem hefur ötullega stutt við bakið á íslensku tónlistarfólki undanfarin ár. Það gerir það að verkum að frítt er inn á alla tónleikana og þeir sem hafa áhuga geta því hlýtt á ljúfa tónlist í fallegu umhverfi.

Hljómsveitin Pascal Pinon var stofnuð árið 2009 af tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum, þegar þær voru 14 ára gamlar. Þær gáfu út sína fyrstu plötu sjálfar en skrifuðum svo undir samning hjá Morr Music í Berlín ári síðar og hafa unnið með þeim upp frá því. Núna nýverið gaf Pascal Pinon út sína aðra breiðskífu, sem ber heitið Twosomeness eða Tvímanaleiki, og hefur sveitin fylgt henni eftir með tónleikahaldi bæði hér heima og erlendis.

Blásaratríóið samanstendur af Áslaugu Rún Magnúsdóttur klarinettleikara, Björgu Brjánsdóttur flautuleikara og Bryndísi Þórsdóttur fagottleikara. Þær hófu samstarfið í febrúar á síðasta ári en hafa verið duglegar við framkomu og tónleikahald síðan þá. Þær hafa flutt verk eftir Bach, Beethoven, Handel og Stravinsky en hafa sett saman sérstaka efnisskrá fyrir tónleikaferðalagið.

Einnig munu tríóið og Pascal Pinon flytja nokkur lög saman í útsetningum eftir systurnar.

Hér eru nokkrir linkar sem tengjast verkefninu

www.pascalpinon.com

www.facebook.com/pascalpin0n

www.facebook.com/events/126844817523044/?fref=ts