Úthlutun í apríl

March 31, 2014

131 umsóknir bárust í Kraum tónlistarsjóð í ný loknu umsóknarferli. Flokkun og yfirferð umsókna er í fullum gangi og er gaman að segja frá því að margar góðar umsóknir bárust og því þarf að velja á milli margra spennandi verkefna.

Kraumur notast ekki við umsóknareyðublöð en allar umsóknir þurfa að innihalda stutt yfirlit yfir verkefnið, upplýsingar um markmið umsækjanda og fjárhagsáætlun. Það að umsóknarferlið sjálft sé ekki staðlað gerir yfirferðina vissulega seinlegri en um leið eru umsóknirnar persónulegri, margbreytilegri og einnig skemmtilegri. Eitt er víst að verkefnin eru metnaðarfull og hugmyndirnar margvíslegar sem eru í farvatninu hjá íslensku tónlistarfólki. Það fer að minnsta kosti ekki á milli mála að sköpunarkrafturinn og metnaðurinn er mikill. Þau verkefni sem bíða hljómsveita, listamanna og viðburðastjórnenda sem sóttu um stuðning og samstarf við Kraum eru virkilega spennandi og það er gaman að taka þátt og upplifa þessa gróskumiklu tíma í íslensku tónlistarlífi.

Flestar umsóknirnar í ár tengjast tónleikahaldi erlendis og kynningu á útgefnum verkum en svo bárust margar óskir um stuðning vegna hljómplötuvinnslu, tónleikahalds innanlands, nýsköpunar og til kynningar á tónlistarfólkinu sjálfu á margvíslegan og frumlegan hátt.

Samanlagður kostnaður við verkefnin 131 sem sótt var um stuðning fyrir hleypur á um 350 milljónum en sótt var um styrki fyrir 100 milljónir úr Kraumi í ár, eða um 780 þúsund krónur á hvert verkefni að meðaltali. Kraumur leggur ávallt metnað sinn við að styðja frekar færri verkefni gera það þannig að stuðningurinn sé afgerandi þegar kemur að styrkjum til listafólks og þar af leiðandi færri yfir heildina.

Kraumur tónlistarsjóður var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði. Kraumur hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn til að auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan. Markmið Kraums er að styrkja stöðu tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, aðstoð, ráðgjöf og samstarfi af ýmsu tagi. Kraumur vill jafnframt styðja við og ýta undir nýsköpun og metnað á tónlistarsviðinu.

Auk beins stuðnings við einstaka listamenn/hljómsveitir og verkefni þeirra á sviði tónleikahalds og kynningar innanlands sem utan (innrásar og útrásar verkefni) þá hefur Kraumur starfrækt eigin verkefni og má þar nefna Kraumslistann sem verðlaunar og styður við bakið á íslenskri plötuútgáfu og verðlaunar þá titla sem þykja skara fram úr í frumleika og metnaði á ári hverju. Kraumur hefur einnig átt í góðu samstarfi við Músíktilraunir og starfrækt Hljóðverkssmiðjur þar sem ungum og upprennandi listamönnum og hljómsveitum sem skipa efstu þrjú sætin gefst kostur á að fá ráðgjöf og vinna nýtt efni undir leiðsögn reyndari tónlistarmanna í Sundlauginni. Einnig má geta þessa að Kraumur hefur í samvinnu við tónlistarhátíðina Aldrei Fór Ég suður staðið fyrir Poppfræðslurokkgreiningarfundum síðan 2009 fyrir tónlistarfólk og áhugasama á Ísafriði um Pásakana. Á síðustu ráðstefnum hefur margt verið skrafað og rætt og telja forsvarsmenn verkefnisins að mikilvægt samtal hafið verið búið til um margar hliðar tónlistariðnaðarins.

Kraumur mun aðeins styðja við hluta þeirra verkefna sem sótt var um stuðning fyrir í nýliðnu umsóknarferli enda yfirlýst stefna sjóðsins að styrkja fá verkefni/listamenn en gera það afgerandi. Allir umsækjendur fá svör við umsóknum sínum dagana 4. til 7. apríl.

Stefnt er að því að tilkynna hverjir hljóta styrki úr Kraumi tónlistarsjóði miðvikudaginn 9. apríl.