Kraumsverðlaunin afhent í dag

November 28, 2008

Kraumsverðlaunin verða tilkynnt og afhent í fyrsta sinn í dag, föstudaginn 28. nóvember kl 16.00.

Kraumsverðlaunin eru ný plötuverðlaun, sett á fót í þeim tilgangi að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna – og verðlauna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika. Verðlaunin hafa ekkert aldurstakmark, en markmið þeirra er að einbeita sér að verkum yngri kynslóðar íslenskra tónlistarmanna og hljómsveita.

Það er von aðstandenda verðlaunanna að þau verki athygli á fjölbreyttri íslenskri plötuútgáfu, nú þegar jólagjafaflóðið er við það að skella á og listamenn reiða sig hvað mest á plötusölu. 

Kraumur mun styðja við verðlaunaplöturnar, og jafnframt auka við möguleika listamannanna bakvið þær til að koma verkum sínum á framfæri utan landsteinana, með því að kaupa ákveðinn fjölda af plötunum og dreifa til ýmissa starfsmanna tónlistarbransans erlendis (tónlistarhátíðir, plötuútgáfur, umboðsskrifstofur o.s.frv.), í samvinnu við Útflutningskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN).

Frekari upplýsingar um tilnefnignar og verðlaunaplötur Kraumsverðlaunanna verða birtar hér á vefnum í dag.