Starfssemi

Kraumur hefur komið víða við frá því að sjóðurinn var stofnaður og starfsemin hófst í upphafi árs 2008.

Kraumsverðlaunin

Kraumsverðlaunin, árleg plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs, hafa verið veitt árlega frá árinu 2008.  Afhending þeirra hefur oftast farið fram í kjallaranum að Vonarstræti 4B en líka á tónleikastöðum.  Alls hafa 51 listamenn hlotið Kraumsverðlaunin og 186 hljómplötur hafa verið tilnefndar til verðlaunanna.

Innrásin

Á fyrstu vikum starfssemi sinnar ýtti Kraumur úr vör sérstöku átaki til að styðja listamenn til tónleikahalds innanlands, og gefa þeim færi á að koma tónlist sinni á framfæri um allt land.

Umsóknarferli

Á árunum 2008-2014 stóð Kraumur fyrir umsóknarferlum þar sem listamenn og hljómsveitir gátu sótt um stuðning við tónlistarferil sinn og verkefni.  Sjóðnum barst jafnan mikið magn umsókna, oftast vel yfir 200 í hverju umsóknarferl, en Kraumur hefur jafnframt haft frumkvæði að fjölmörgum verkefnum á eigin vegum og í samstarfi við listamenn.

Styrkúthlutanir

Kraumur hefur á starfstíma sínum úthlutað hátt í 200 styrkjum til listamanna og ýmissa verkefna til stuðnings íslensks tónlistarlífs.  Úthlutunarathafnir sjóðsins hafa að venju farið fram þar sem íslensk tónlist heyrist og lifir, m.a; æfingahúsnæðum hljómsveita á Hólmaslóð og Smiðjustíg, Kex, Grandrokk, Iðnó, Kaffi Rósenberg og Mengi.

Kraumur hefur, með stuðningi Auroru velgerðarsjóðs, varið alls 140 milljónum í starfsemi og styrki til stuðnings íslensku tónlistarlífi.

Vonarstrætið

Haustið 2009 flutti Kraumur starfssemi sína í húsið að Vonarstræti 43, sem þá hafði staðið autt í rúm tvö ár, ásamt Hönnunarmiðstöð Íslands og Hönnunarsjóði Auroru.  Þar stóð sjóðurinn m.a. fyrir námskeiðum, sýningum og tónleikum.

Pop-Up borg Kraums og Hönnunarsjóðs Auroru

Þann 14. mars 2016 stóðu Kraumur og Hönnunarsjóður Auroru fyrir stefnumóti tónlistar og hönnunar í Hafnarhúsi Reykjavíkur, sem um leið var uppskeruhátið Kraums í tengslum við breytt hlutverk sjóðsins.

Húsfyllir var á viðburðinum, sem lýsa mætti sem götupartý með tónleikum, þar sem tónlistarmenn, hönnuðir og arkitektar mættust í pop-up borg framtíðarinnar.  Aðgangur var ókeypis og öllum opinn.

Á tónleikasviði portsins léku hljómsveitirnar Retro Stefson, Sin Fang og Samaris sem allar hafa fengið Kraumsverðlaun fyrir verk sín.  Einnig komu fram í ýmsum skúmaskotum rýmisins; Snorri Helgason, Bjartey og Gígja úr YLJU, Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn.