Vel heppnað námskeið á Aldrei fór ég suður

April 21, 2009

Fjölmargir reynsluboltar úr íslensku tónlistarlífi deildu reynslu sinni á námskeiði Kraums og Aldrei fór ég suður.

Rúmlega 60 tónlistarmenn, frá Vestfjörðum sem og annarstaðar af landinu, tóku þátt í vel heppnuðu námskeiði og pallborðsumræðum Kraums og Aldrei fór ég suður, Hvar er draumurinn?, sem fram fór í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þann 10. apríl. Markmiðið var m.a. að miðla reynslu, styðja tónlistarlíf á Vestfjörðum og aðstoða unga og upprennandi listamenn við tónlistarferil sinn.

Fjölbreytt dagskrá var í boði sem kom inn á íslenska textagerð, sjálfbæra tónlistarþróun og hvernig best er að koma sér og tónlist sinni á framfæri. Námskeiðin voru öllum opin og engin aðgangseyrir.

Meðal þátttakenda voru Örn Elías Guðmundsson (Mugison), Óttar Proppé (Dr. Spock), Árni Rúnar Hlöðversson (FM Belfast), Katrín Mogensen (Mammút), Gunnar Örn Tynes og Örvar Þóreyjarson Smárason (múm). Kristján ‘Krissi Rokk’ Freyr Halldórsson sá um fundarstjórn og stóð sig með miklum sóma.

Kraumur þakkar aðstandendum Aldrei fór ég suður, Kristjáni Frey og öllum sem lögðu hönd á plóg kærlega fyrir samstarfið.