Hljóðverssmiðjur á Flateyri

June 11, 2009

Kraumur tónlistarsjóður stendur fyrir Hljóðverssmiðjum í upptökuverinu Tankinum við Önundafjörð á Flateyri, dagana 11.-18. júní.

Í dag, fimmtudaginn 11. júní, hefjast Hljóðverssmiðjur Kraums í Tankinum á Flateyri. Hljómsveitirnar sem taka þátt í smiðjunum eru Bróðir Svartúlfs [mynd], Ljósvaki og The Vintage – sem skipuðu þrjú efstu sætin á Músíktilraunum 2009. Meðal verðlauna á Músíktilraunum í ár var þáttaka í smiðjunum.

Markmiðið með Hljóðverssmiðjum Kraums er að styðja við grasrótina í íslensku tónlistarlífi, miðla reynslu og gefa hljómsveitunum tækifæri á að taka upp efni sem nýst gæti við kynningu á sér og sinni tónlist. Upptökurnar nýta hljómsveitirnar eftir hentugleika, t.a.m. til dreifingar á netinu eða til útvarpsstöðva, eða sem byrjun fyrir sína fyrstu breiðskífu. Í smiðjunum gefst jafnframt tækifæri til að semja ný lög og vinna saman

Leiðbeinendur á smiðjunum eru; Mugison (Örn Elías Guðmundsson) tónlistarmaður sem hefur víðtæka reynslu af vinnu í hljóðverum, Páll Ragar Pálsson sem er þekktur úr rokkinu sem gítarleikari Maus, er með BA í Tónsmíði frá Listaháskóla Íslands og er að ljúka mastersnámi í vor frá Estonian Academi of Music og Önundur Hafsteinn Pálsson, slagverskleikari, upptökumaður, tónlistarkennari á Ísafirði og Flateyri og frumkvöðull við að koma hljópðverinu Tankinum á laggirnar á Flateyri.

Tankurinn var reistur árið 1925 til geymslu á lýsi en var breytt í atvinnuhúsnæði árið 1980. Ýmis starfsemi hefur verið í Tankinum síðan þá, m.a. bátasmiðja, trésmíðaverkstæði og nú síðast beitningaraðstaða. Eftir miklar endurbætur var aðstaðan orðin boðleg til að taka upp tónlist. Múgsefjun var fyrsta hljómsveitin til að taka upp í Tankinum vorið 2007, en breiðskífa þeirra ‘Skiptar skoðanir’ er að fullu tekin upp í hljóðverinu. Síðan hafa ýmsir listamenn tekið upp í Tankinum og franska hljómsveitin Klezmer Chaos tók þar upp um páskana.