Úthlutun Auroru velgerðarsjóðs – 20 milljónum varið til tónlistarlífs á Íslandi

March 17, 2010

Aurora velgerðarsjóður úthlutar 20 milljónum til Kraums tónlistarsjóðs og áframhaldandi starfsemi og stuðningi sjóðsins á sviði íslensks tónlistarlífs.

Stjórn Auroru velgerðasjóðs kynnti þann 16. mars þá ákvörðun sína að veita alls 100 milljónir króna til fjögurra verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkinu Síerra Leóne.

Nýtt styrktarverkefni sjóðsins er Brúðuheimar í Borgarnesi, lista- og menningarmiðstöð, sem verður mikilvægur þáttur í menningartengdri  ferðaþjónustu á svæðinu.  Brúðuheimar fá 15 milljónir króna, þar af 7 milljónir króna í formi láns. Þrjú verkefni fá styrki í annað eða þriðja sinn: Hönnunarsjóður Auroru fær 25 milljónir króna, Kraumur, tónlistarsjóður Auroru, fær 20 milljónir króna og menntaverkefni í Síerra Leóne fær 40 milljónir króna.

Þetta er í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr Auroru velgerðasjóði, sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ólafur Ólafsson stofnuðu janúar 2007 og lögðu til einn milljarð króna. Á þessum þremur árum hefur fjármunum verið varið úr sjóðnum til verkefna sem stuðlað geta að betra mannlífi á Íslandi og í þróunarlöndunum. Aurora velgerðasjóður er sjálfseignarstofnun með sjálfstæða stjórn um fjármuni sem stofnuninni hafa verið afhentir með óafturkræfum hætti. Stofnfé Auroru velgerðasjóðs hefur ávaxtast ágætlega og er í dag um 1,3 milljarðar króna.

Styrkir upp á alls 400 milljónir króna
Sjóðurinn hefur verið trúr þeim meginmarkmiðum sínum að styrkja fá en stór verkefni þar sem þörf er fyrir verulega fjármuni til að þau geti orðið að veruleika og dafnað.  Sjóðsstjórn tekur jafnframt mið af því að viðkomandi verkefni hafi afgerandi áhrif í samfélögum sínum. Lögð er áhersla á að fjárframlög sjóðsins á Íslandi efli nýsköpun og sprotastarfsemi og auðgi þannig flóru atvinnugreina í landinu. Verkefni, sem Aurora styrkir í þróunarlöndunum, eru tengd menntun og menningu en einnig heilsugæslu. Leitast er við að fylgja verkefnum vel eftir og aðstoða styrkþega og samstarfsaðila eftir föngum.

Frá stofnun, fyrir þremur árum, hefur Aurora velgerðasjóður ráðstafað alls 322,5 milljónum króna til 11 verkefna.  Þar af hafa 144,5 milljónir króna runnið til fjögurra verkefna í Afríku og Nepal og 178 milljónir króna til sjö verkefna hér á landi. Þess má geta að áður en sjóðurinn var formlega stofnaður styrktu þau Ingibjörg og Ólafur tvö verkefni, hér á landi og í Afríkuríkinu Síerra Leóne, um 78 milljónir króna, þannig að heildarupphæð styrkja er orðin um 400 milljónir króna.

Landnámssetrið í Borgarnesi er annað þessara tveggja innlendu verkefna og markaði reyndar upphafið að stofnun Auroru velgerðasjóðs. Það er um margt dæmigert fyrir verkefni sem sjóðurinn styrkir hér á landi og setrið  hefur tvímælalaust haft mikil áhrif í heimahéraði sínu og raunar í íslensku samfélagi. Fuglasafn Sigurjóns við Mývatn er annað áhugavert verkefni sem Aurora velgerðasjóður hefur styrkt á landsbyggðinni. Sjóðurinn hefur einnig haft frumkvæði að því að stofna tvo dóttursjóði, Kraum tónlistarsjóð og Hönnunarsjóð Auroru.

Rökstuðningur Auroru í stuðningi við Kraum tónlistarsjóð:
Kraumur, tónlistarsjóður Auroru fær 20 milljónir króna til að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar og til kynningar á verkum sínum. Kraumur var stofnaður í ársbyrjun 2008 að frumkvæði Auroru velgerðasjóðs og er þetta í þriðja sinn sem sjóðurinn fær þessa upphæð til úthlutunar. Markmið með stofnun sjóðsins var m.a. að styrkja unga tónlistarmenn á Íslandi með beinum fjárstuðningi, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi.
Starfsemi Kraums tónlistarsjóðs hefur verið umfangsmikil og blómleg.

Á þessum tveimur árum hefur sjóðurinn úthlutað tæplega 30 milljónum króna í beinum styrkjum til 74 tónlistarmanna, hljómsveita og tónlistartengdra verkefna.  Einnig hefur sjóðurinn átt fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans. Sjóðurinn hefur m.a. styrkt tónleika og tónleikaferðalög heima og heiman, aðstoðað við markaðssetningu erlendis og staðið fyrir nýjum tónlistarviðurkenningum, Kraumslistanum.

Ljóst  er að nærvera sjóðsins skiptir miklu máli í íslensku menningarlífi, sem marka má til dæmis af því að tæplega 200 umsóknir bárust þegar síðast var auglýst úthlutun úr sjóðnum! Framkvæmdastjóri Kraums, tónlistarsjóðs Auroru, er Eldar Ástþórsson.

Frekari upplýsingar
Frekari upplýsingar um Auroru velgerðarsjóð og styrktarverkefni hans 2010 má finna á heimasíðu sjóðsins;

http://www.aurorafund.is/