Við Djúpið í 10 ár

June 14, 2012

Tónlistarhátíðin Við Djúpið fer fram í 10. sinn dagana 19.–24. júní 2012. Sérstaða hátíðarinnar felst í áherslu á metnaðarfullt námskeiðahald fyrir tónlistarnema jafnhliða glæsilegri tónleikadagskrá fyrir íbúa og gesti Ísafjarðar.

Við Djúpið veitir ungu tónlistarfólki sérstakt brautargengi og vinnur í samstarfi við fjölmarga innlenda og erlenda aðila. Við Djúpið gegnir veigamiklu menningar- og fræðsluhlutverki og hefur átt ríkan þátt í nýsköpun í tónlist. Þetta er í annað sinn sem Kraumur tónlistarsjóður styrkir dagskráliði hátíðarinnar.

Á hátíðinni í ár er boðið upp á þrjú masterklass námskeið; á píanó, fiðlu og þverflautu í umsjá Jorja Fleezanis fiðluleikara, Vovka Stefáns Ashkenazy, píanóleikara og Stefáns Ragnar Höskuldssonar, flautuleikara. Þau munu einnig koma fram á tónleikum í dagskrá hátíðarinnar ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, píanóleikara, Sif Tulinius, fiðluleikara og Sæunni Þorsteinsdóttur, sellóleikara. Þá leikur klarinettukvintett the Declassified á tvennum tónleikum. Aðrir þeirra eru uppskerutónleikar Nýrra tónskálda; verkefnis sem hátíðin réðst í fjórða sinni í ár.

Auk hefðbundinna tónleika hátíðarinnar er að venju boðið upp á röð fræðandi hádegistónleika. Þá verður í ár efnt til nýrrar tónleikaraðar sem er tileinkuð söngvaskáldum þar sem Helgi Hrafn Jónsson, Jussanam Dejah, Skúli mennski og KK troða upp ásamt húshljómsveit. Nemendur hátíðarinnar koma fram á tvennum tónleikum.

Upplýsingar dagskrá hátíðarinnar má finna á heimasíðu hennar www.viddjupid.is.