Ólafur Arnalds í Fríkirkjunni

December 8, 2008

Ólafur Arnalds lýkur 6 mánaða tónleikaferðalagi með tónleikum í Fríkirkjunni, fimmtudaginn 18. desember.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Mosfellingurinn Ólafur Arnalds vakið verðskuldaða athygli og fyllt tónleikahallir víðsvegar um heiminn, þar á meðal Barbican Hall í London. Hann hélt nýlega upp á 22 ára afmælisdaginn sinn í tónleikarútu, enda búinn að vera í nánast einni samfelldri tónleikaferð frá því í maí og leika á um 100 tónleikum í yfir 20 löndum.

Auk þess að spila á fjölda tónlistarhátíða hitaði Ólafur upp fyrir Sigur Rós á nokkrum tónleikum sveitarinnar í Evrópu. Á tónleikaferðinni hefur Ólafur leikið efni af breiðskífum sínum; ‘Eulogy for Evolution’ og ‘Variation of Static’.

Frumburður Ólafs Arnalds, ‘Eulogy for Evolution’, vakti mikla athygli í tónlistarpressunnin, fékk frábæra dóma í innlendum sem erlendum fjölmiðlum og endaði á fjölmörgum “Bestu plötur ársins 2007” listum. Í maí gaf Ólafur síðan út stuttskífuna ‘Variations of Static’, þar sem hann hélt í klassískan grunn frumburðar síns, en kynnti einnig til sögunnar elektróník. Ólafur vinnur nú að þriðju plötu sinni, en viðræður eru í gangi við nokkrar erlendar plötuútgáfur um útgáfu hennar.

Tónleikarnir í Fríkirkjunni hefjast klukkan 20:00. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Ólöf Arnalds. Forsala er í verslunum Skífunnar og á Midi.is og er miðaverð aðeins 1.000 krónur í forsölu.

Kraumur styður við tónleika Ólafs Arnalds í Fríkirkjunni og kemur að undirbúningi þeirra. Plata Ólafs ‘Variations of Static’ var tilnefnd til Kraumsverðlaunanna 2008. Frekari upplýsingar; www.olafurarnalds.com