Vel heppnuð tónlistarkynning Víking Heiðars

March 6, 2009

Víkingur Heiðars Ólafsson, píanóleikari, og Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur, kynna framhaldsskólanemum fyrir heim klassískrar tónlistar.

Víkingur Heiðar og Árni Heimir heimsóttu framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins í annað sinn í síðasta mánuði og fluttu tónlistarkynningu sína í fjórum skólum daganna 17.-20. febrúar. Í skólunum hafa þeir kynnt fyrir hlustendum heim klassískrar tónlistar með tónleikum og kynningu sem samanstendur af spjalli um tónskálind og verk þeirra.

Dagskráin var vel sótt í öllum fjórum skólunum, en þeir að þessu sinni voru heimsóttir; Flensborg, Menntaskólinn í Hamrahlíð, Kvennaskólinn í Reykjavík (dagskrá fór fram í Listasafni Íslands) og Menntaskólinn í Reykjavík (dagskrá fór fram í Háskólabíó).

“Þetta gekk frábærlega og ég hef nú þegar heyrt af afspurn að þetta hafi vakið mikla lukku, m.a. frá nemendum og kennurum” segir Víkingur Heiðar um dagskránna og viðtökurnar við henni. “Ég gæti ekki verið ánægðari og ég vona að við getum haldið áfram með slík verkefni í einhverjum farvegi á komandi misserum.”

Þetta í annað sinn sem Víkingur og Árni heimsækja framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu, en í nóvember var húsfyllir á dagskrá þeirra í Flensborg, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Menntaskólanum í Reykjavík (dagskrá í Háskólabíó), Háskólanum í Reykjavík (dagskrá í Borgarleikhúsinu) og Háskóla Íslands. Þá var boðið upp á kynningu á verkum 19. aldarinnar – en að þessu sinni snérist efnisskráin um tónlist 20. aldarinnar.

Eftir kynningarnar í nóvember sagði Víkingur í samtali við Fréttablaðið; “Oft setur fólk sig í sérstakar stellingar þegar það hugsar um klassískar listir. Við reynum að losa þessar stellingar og vekja athygli á því að best sé að upplifa tónlistina á sínum eigin forsendum. Það hefur gengið vel og orkan úr salnum er mjög góð.”

Dagskráin er styrkt af Kraumi, en Víkingur og Árni voru með þeim fyrstu til að hljóta stuðning frá tónlistarsjóðnum vorið 2008.