Mammút í Evrópu 2010

September 24, 2010

Hljómsveitin Mammút komin heim úr tónleikaferð um Evrópu sem farin var í samvinnu við og með stuðningi Kraums.

Undirbúningur fyrir tónleikaferð hljómsveitarinnar Mammút til Evrópu stóð í nokkra mánuði. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sveitina og aðra plötu hennar, Karkari, í Þýskalandi og þýskumælandi löndum þar sem hún kom út á vegum Rough Trade útgáfunnar fyrir tæplega ári.

Alls lék sveitin 16 tónleikum á 17 dögum:

Jul 22 – Superkronik – (Leipzig, DE)
Jul 23 – Kino – (Ebensee, AT)
Jul 24 – Kuahgartn Open Air – (Babensham St. Leonhard, DE)
Jul 25 – Eier mit Speck Festival – (Viersen, DE)
Jul 27 – Am Schluss Festival – (Thun, CH)
Jul 28 – Sonic Ballroom – (Cologne, DE)
Jul 29 – Hafen 2 – (Offenbach, DE)
Jul 30 – Krach Am Bach – (Beelen, DE)
Jul 31 – Lott Festival – (Raversbeuren, DE)
Aug 1 – Astra Stube – (Hamburg, DE)
Aug 2 – White Trash – (Berlin, DE)
Aug 3 – Old Kino – (Slavonice, CZ)
Aug 4 – Tabacka Kulturfabrik – (Kosice, SK)
Aug 5 – Tüzraktér – (Budapest, HU)
Aug 6 – STUCK! 2010 @ Rockhouse – (Salzburg, AT)
Aug 7 – Stadtgarten – (Erfurt, DE)

Að sögn sveitarinnar gengur flestir þessara tónleika vonum framar, en eftirminnilegastir eru eftirtaldir:

Am Schluss í Sviss: Thun er fallegasta borg Sviss og þó víðar væri leitað, spiluðum á torgi einu niðrí bæ sem staðsett var á árbakka við hliðina á risastóru parísarhjóli. Þar voru samankomnir um 2000 manns sem einungis komu til að sjá Mammút.

Old Kino í Tékklandi: Leit illa út í fyrstu, pínulítill bær og slæmur tónleikastaður, en svo troðfylltist húsið og myndaðist þvílík stemning, sú besta á túrnum. Börn, unglingar, fullorðnir og gamalmenni dönsuðu þar saman trylltan dans og sungu jafnvel með á tímabilum. Kona ein með tárin í augunum gaf Kötu söngkonu svo armband eftir tónleikana.

STUCK! 2010 í Þýskalandi: Stærsta hátíðin sem spilað var á, kringum 8000 manns sem á hlýddu. Magnað í alla staði.

Eftir alla tónleika settust meðlimir bandsins niður og seldu geislaplötur og stuttermaboli af miklum móð. Svo skemmtilega (eða illa) vildi til að allar plötur Mammút seldust upp þegar um 10 tónleikar voru að baki og brá þá sveitin á það ráð að skrifa diska í tölvu sem með var í för og föndra fallegar skreytingar og myndir og búa til úr þeim umslög, að eigin sögn með misjöfnum árangri.

Mammút segir;

Þó svo að svona ferð sé vissulega snarasta snilld og oft mikið um dýrðir og húllumhæ þá er þetta líka mikil vinna, lýjandi á köflum og engan veginn gefins.

Peningar eru afar mikilvægir til að svona verkefni geti gengið vel fyrir sig og er í raun algjör forsenda þess að þetta sé yfirleitt gerlegt. Þar kom styrkur Kraums sér afar vel svo vægt sé til orða tekið.

Það er okkar einlæga mat að hefði styrkur Kraums ekki verið fyrir hendi hefði ferð þessi verið illfær og jafnvel ófær með öllu nema meðlimir Mammút hefðu ákveðið að stofna sér og sínum nánustu í skuldafangelsi. Og það er nú ekki ákjósanlegur kostur.

Við þökkum því Kraumi innilega fyrir stuðninginn og vonumst til að geta unnið meira með sjóðnum í nánustu sem og fjarlægri framtíð.

Kraumur þakkar á móti Mammút fyrir samstarfið. Góður árangur náðist í að bóka og skipuleggja ferðalagið, sem ekki síst má þakka dugnaði og sístækkandi tengslaneti sveitarinnar. Kraftur hennar við að koma sér og tónlist sinni á framfæri er greinilega farin að skila árangri í Þýskalandi, sem sífellt er að verða mikilvægari fyrir íslenska tónlistarmenn. Vonandi ryður þetta brautina fyrir frekari sigra Mammút og fleiri íslenskra tónlistarmanna í Þýskalandi og nágrenni.