Ný breiðskífa Víkings Heiðars Ólafssonar

September 28, 2010

Víkingur Heiðar Ólafsson undirbýr upptökur og útgáfu fyrir nýja breiðskífu sem væntanleg er í nóvember.

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson undirbýr þessa dagana upptökur fyrir aðra breiðskífu sína sem fylgja mun í kjölfarið á frumburðinum Debut. Platan mun innihalda verk Johann Sebastian Bach (Partitas No 2 and 5) og Frédéric Chopin (24 Preludes). Áætlað er að upptökur fari fram í lok október og að platan líti dagsins ljós þann 27. nóvember. Útgefandi er Hands on Music útgáfa Víkings sjálfs.

Víkingur Heiðar lauk námi til meistaragráðu frá Juilliard Listaháskólanum vorið 2008. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika frá unglingsaldri, m.a. Í Bandaríkjunum, Kína, Kanada, Lettlandi, Rúmeníu, Ítalíu, Belgíu, Spáni og Frakklandi auk þess að leika einleik m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Juilliard Orchestra, New Juilliard Ensemble, Caput og Kammersveit Reykjavíkur.

Víkingur hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir leik sinn. Hann hefur unnið Íslensku Tónlistarverðlaunin sem besti flytjandi og bjartasta vonin, sigrað í konsertkeppni Juilliard skólans og hlotið Menningarverðlaun Ameríska-Skandinavíska félagsins. Víkingur var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2009.

Kraumur styður Víking Heiðar og Hands on Music við gerð, vinnslu og útgáfu plötunnar.

Hlekkir
www.vikingurolafsson.com