Kraumur á Iceland Airwaves

October 10, 2010

Kraumur og Backyard á Iceland Airwaves 2010, opnir ókeypis tónleikar á föstudaginn.

Kraumur og tónlistarmennirnir bakvið heimildarmyndina Backyard taka höndum saman á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves, dagana 13.-17. október. Opnir ókeypis tónleikar verða fyrir alla aldurshópa á föstudaginn, þar sem fram koma nokkrar hljómsveitir úr myndinni. Á föstudaginn verður ‘spurt & svarað’ (Q&A) og umræður í kjölfar sýningar á myndinni á laugardaginn.

DAGSKRÁ:
Miðvikudagur 13. október, kl 17.00 – Backyard sýnd
Fimmtudagur 14. október, kl 17.00 – Backyard sýnd
Föstudagur 15. október, kl 17.00 – Backyard sýnd + Kraumur & Backyard tónleikar
Laugardagur 16 október, kl 17.00 – Backyard sýnd + Spurt & svarað / umræður
Sunnudagur 17. október, kl 17.00 – Backayrd sýnd

Viðburðirnir fara fram í Bíó Paradís (gamla Regnboganum), Hverfisgötu 54, 101 Reykjavík. Airwaves gestir fá helmings afslátt á sýningunum, en ókeypis er á tónleikana.

Þetta er þriðja árið í röð stendur Kraumur fyrir dagskrá á Iceland Airwaves hátíðinni í samvinnu við tónlistarmenn og aðra góða aðila. Árið 2008 voru haldin tvö tónleikakvöld á Smiðjustíg sem opin voru öllum aldurshópum og innihélt m.a. tónleika með Dísu, Morðingjunum, Sam Amidon og Retro Stefson.

Í fyrra stóð Kraumur og ljósmyndarinn Hörður Sveinsson fyrir sýningunni Myndir & Mayhem þar sem íslensku tónlistarlífi var gerð skil í máli og myndum. Samhliða sýningunni í Kaffistofunni á Hverfisgötu voru haldin fjögur tónleikasíðdegi þar sem fram komu Sudden Weather Change, Sykur, Mammút, Who Knew, Bárujárn, Miri og fleiri upprennandi hljómsveitir. Auk þess sem Mugison var sérstakur leynigestur.