Nordic Affect sendir frá sér nýjan geisladisk

December 21, 2011

Nordic Affect hafði gengið lengi með þann draum að taka upp geisladisk með verkum eftir Carl Friedrich Abel. Draumurinn varð að veruleika með styrk frá Kraumi. Geisladiskurinn er nú tilbúinn og á leið í verslanir út um allan heim þökk sé útgáfusamningi við hollenska útgáfufyrirtækið Brilliant Classics.

En af hverju Abel? Spyrja eflaust einhverjir. Það má segja að Abel hafi einfaldlega heillað Nordic Affect upp úr skónum með verkum sínum en þeirra fyrstu kynni af verkum hans var innan tónleikaraðar sveitarinnar í Þjóðmenningarhúsinu. Má segja ad Abel hafi verið maður sem kunni heldur betur að skrifa undurfagra hæga kafla, var hann sjálfur rómaður fyrir spuna sinn i hægum köflum a gömbuna. Blómatími hans var um miðbik 18. aldar og skipar hann sér því í flokk með tónskáldum a borð við J.C.Bach, Stamitz o.fl. sem voru uppi á þessum mikla gerjunartíma tónlistar. Hann var í raun einn af síðustu gömbusnillingum barokksins og segja má að hann sé tónskáld sem standi á mörkum hins margslungna barokkstíls og hinnar lagrænu klassíkur.

Verkin sem flutt eru á þessum diski óma sjaldan í dag en draga upp góða mynd af fjölbreyttum tónsmíðum Abels sem er kannski þekktastur fyrir gömbutónsmíðar sínar. Það var heilmikil vinna að ákveða hvað ætti að rata inn á diskinn og því var farið í gegnum heilu bunkana af verkum. Fyrir valinu urðu tveir flautukonsertar, ein strengjasinfónía, ein tríósónata ásamt tveimur flautusónötum. Edward Beckett var Nordic Affedt innan handar hvað varðar nótur að konsertunum sem hann hefur útbúið til útgáfu fyrir Hunt Editions en frumhandrit þeirra er ad finna i Stadtbibliothek Leipzig. Kammerverkin og strengjasinfóníuna fundust hins vegar í handritum í British Library.

Diskurinn var hljóðritaður af Georgi Magnússyni í tengslum við tónleika á Sumartónleikum í Skálholti. Hljóðritun og eftirvinnsla var einnig i höndum Georgs sem er einn af okkar færustu mönnum þegar kemur að hljóðritun klassískrar tónlistar og hafa hljóðritanir hans hlotið tilnefningar til verðlauna bæði hér heima og erlendis. Nordic Affect náði í framhaldi útgáfusamningi við hollenska útgáfufyrirtækið Brilliant Classics sem er eitt hið virtasta í heiminum þegar kemur að útgáfu tónlistar fluttri á upprunahljóðfæri. Fyrirtækið er jafnframt með dreifingu á heimsvísu.

Nordic Affect hefur starfað frá árinu 2005 og hefur áður leikið inn á Apocrypha, geisladisk með samnefndu verki eftir Huga Guðmundsson en diskurinn komst á Kraumslistann og hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Einnig lék sveitin inn á Hymnodia Sacra, geisladisk kammerkórsins Carmina en sá diskur hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrr á árinu. Nú var því kominn tími á geisladisk með verkum fyrri alda frá meginlandinu og hefur sá draumur nú ræst og Abel diskurinn með þessum íslenska kammerhóp á leið í verslanir út um allan heim þann 1. janúar og ekki hægt að segja annað en að við fáum óskabyrjun á árinu 2012. Þökk sé 12 Tónum þá fá Íslendingar hins vegar að þjófstarta, því 12 Tónar gerði samning við Brilliant Classics um að fá diskinn til landsins á undan öllum öðrum og kemur því í verslunina fyrir jól. Fyrir það erum við þakklát og vonandi að sem flestir leggi leið sína í hina notalegu verslun 12 Tóna og tékki á okkar kæra Abel!

Nordic Affect: Heimasíða / Facebook