Of Monsters and Men gera það mjög gott

April 20, 2012

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að hljómsveitin Of Monsters and Men hefur á stuttum tíma náð gríðarlega góðum árangri vestanhafs með sinni fyrstu plötu, My Head is an Animal. Hljómsveitin hefur nú ný lokið sínu fyrsta tónleikaferðalagi um Bandaríkin og það má með sanni segja að hér sé um raunverulegt meik að ræða en meðlimir sveitarinnar eru oftar en ekki hundeltir af aðdáendum.

Það vakti gríðarlega mikla athygli í síðustu viku þegar Of Monsters and Men skaust með sína fyrstu plötu alla leið í 6. sæti bandaríska Billboard-listans en þá var platan nýútkomin. 55 þúsund eintök seldust í þessari fyrstu söluviku og var platan My Head is an Animal einnig mest selda rokkplatan og mest selda nýbylgju- og háskólarokkið þá vikuna. Þess má geta að ná 6. sætinu á Billboard er íslendamet en besti árangur íslensks listamanns var 9. sætið en það var engin önnur en Björk Guðmundsdóttir sem náði þeim árangri með plötu sinni Volta. Ekki var árangurinn síðri hjá Of Monsters and Men í viku tvö en platan er nú í 12. sæti vinsældarlistans sem er frábær árangur. Það var árið 2010 sem OMaM vann Músíktilraunir Hins hússins og það var svo 2011 sem sveitin gerði útgáfusamning við Universal og hefur undirbúningur fyrir útgáfuna og Ameríkutúrinn, sem er nýlokið og styrktur af Kraumi tónlistarsjóði, staðið yfir lengi.

Tónleikaferið Of Monsters and Men um Bandaríkin og Kanada:

20. og 21. mars – Troubadour LA – (Uppselt)
22. mars – Independent , San Francisco – (Uppselt)
24. mars – Roseland Theatre, Portland Oregon – (Uppselt)
26. mars – Showbox Sodo, Seattle, WA – (Uppselt)
29. mars – Fine Line, Minneapolis, MN – (Uppselt)
30. mars – Park West, Chicago, IL, 1000 – (Uppselt)
31. mars – Columbus OH – CD101 Radio show – (Uppselt)
2. apríl – Washington DC – Black Cat – (Uppselt)
3. og 4. apríl – TLA – Philadelphia – (Uppselt)
5. apríl – Music Hall of Williamsburg, Brooklyn NY – (Uppselt)
6. apríl – Webster Hall, NYC – (Uppselt)
7. apríl – House of Blues, Boston – (Uppselt)
9. apríl – Club at Water Street Music Hall – Rochester NY – (Uppselt)
10. apríl – Jillian’s – Albany NY – (Uppselt)
11. apríl – La Sala Rossa, Montreal – (Uppselt)
12. apríl – Phoenix Concert Theatre – Toronto – (Uppselt)

Hér að ofan má sjá hvar hljómsveitin kom við á þessari fyrstu tónleikaferð sinni en Kraumur tónlistarsjóður styður við Of Monsters and Men í útrás þeirra vestanhafs en með í för var einnig Lay Low sem sá um að hita upp en Kraumur styður hana einnig. Það má reikna með því að þau hafi spilað fyrir rúmlega 18.000 manns í ferðinni en hér eru ekki taldir upp ótal tónleikar sem OMaM lék á í Texas þegar hún heimsótti tónlistarbransahátíðina South by Southwest sem fram fór dagana 14. – 18. mars.

Of Monsters and Men á Facebook

Lay Low á Facebook

Myndirnar voru teknar í House of Blues í Boston en þar var uppselt og tæplega 2500 manns á tónleikunum.