Moses Hightower og Snorri Helgason fara saman á tónleikaferð

September 5, 2012

Kraumur tónlistarsjóður styður hljómsveiina Moses Hightower við að kynna nýja plötu sína fyrir landsmönnum og með í för verður Snorri Helgason. Innrásin hefst í dag og stendur til 9. september.

Tónleikahald er sem hér segir:

Mið. 5.9. kl. 21:00 – Sögusetrið, Hvolsvelli
Miðaverð kr. 2000. Húsið opnar kl. 20:30.

Fim. 6.9. kl. 21:00 – gogoyoko wireless, KEX Hostel, Reykjavík
Miðaverð kr. 1500. Húsið opnar kl. 20:00.
Forsala miða á midi.is

Fös. 7.9. kl. 22:00 – Græni hatturinn, Akureyri
Miðaverð kr. 2000. Húsið opnar kl. 21:00.
Forsala miða í Eymundsson, Akureyri.

Lau. 8.9. kl. 21:00 – Sjóræningjahúsið, Patreksfirði
Miðaverð kr. 2000. Húsið opnar kl. 20:30.

Sun. 9.9. kl. 21:00 – Fossatún, Borgarfirði
Miðaverð kr. 2000. Húsið opnar kl. 20:00.

Hefjast hverjir tónleikar á því að Snorri flytur einyrkjadagskrá við eigin kassagítarundirleik, en Moses Hightower flytur sína ópusa í síðari hálfleik. Á tónleikunum verða sérstakir gestir Mosesar þeir Haukur Gröndal saxófónleikari og Samúel Jón Samúelsson básúnuleikari, en ekki er loku fyrir það skotið að Snorri skjóti einnig upp kollinum í seinna setti sem sjöundi maður á sviði.

Snorri og Moses eru með tvær ólgandi breiðskífur í farteskinu hvor, en þessi tónleikaröð er haldin þétt í kjölfar útgáfu þeirrar nýjustu, Annarrar Mósebókar. Eins og hinar plöturnar þrjár sem leikið verður efni af hefur Önnur Mósebók fengið framúrskarandi góða dóma: 4/5 í Fréttablaðinu, 9,8 á Rás 2, 5/5 í Fréttatímanum og 4,5/5 í Morgunblaðinu. Tvö lög af plötunni, Stutt skref og Sjáum hvað setur, hafa verið að gera það ákaflega gott í útvarpi undanfarnar vikur og mánuði, og bæði setið á toppi vinsældalista Rásar 2.

Fyrri plata sveitarinnar, Búum til börn, kom út 2010 og var m.a. tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins og fyrir textasmíðar ársins.

Plötur Snorra Helgasonar, I’m gonna put my name on your door (2009) og Winter sun (2011) hafa fengið frábærar viðtökur, innanlands og utan. Snorri komst fyrst í sviðsljósið sem meðlimur Sprengjuhallarinnar, en frá því hún fór í pásu hefur hann gert stormandi lukku með þýðan þjóðlagapoppbræðing sinn, þar sem sterkar melódíur og kassagítarinn eru í forgrunni.

Tónleikaferðin er farin í samstarfi við Kraum tónlistarsjóð og Cheap Jeep.