Glæsilegir útitónleikar Bjarkar og Sigur Rós

July 1, 2008

Glæsilegir útitónleikar með yfirskriftinni Náttúra voru haldnir við gömlu þvottalaugarnar í Laugardalnum síðastliðinn laugardag, 28.  júní, þar sem að Björk, SigurRós, Ólöf Arnalds og Ghosdigital komu fram. Tónleikarnir tókust framar vonum og almenn gleði og góður andi ríkti hjá áhorfendum að þeim loknum.

Aurora velgerðasjóður og Kraumur voru meðal þeirra sem styrktu þessa tónleika, þar sem öllum var heimill aðgangur án endurgjalds og þegar hæst stóð voru um 30 þúsund manns í brekkunni við þvottalaugarnar.

Þessi staðsetning var einkar vel til fundinn og Þvottabrekkan hefur sannað sig sem tónleikastaður, falleg staðsetning, miðsvæðis og tréin sem umkringja svæðið gera það að verkum að það er meira log en á mörgum öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Tónleikarnir hófust kl. 17:00 og margir tónleikagestanna gerðu sér glaðan dag,  mættu vel búnir með börn og buru, teppi og nesti, nutu veðurblíðunnar og fallegra tóna fram eftir kvöldi.

Tónleikarnir voru einnig sýndir beint á netinu, þar sem að 2,5 milljónir manna fylgdust með.

Heimasíða: www.nattura.info