Mógil á WOMEX

November 17, 2009

Hljómsveitin Mógil og söngkonan Heiða Árnadóttir á WOMEX hátíðinni í Kaupmannahöfn.

Hljómsveitin Mógil lék á stærstu heims- og þjóðlagahátíð heims, WOMEX, sem fram fór í  Kaupmannahöfn í síðasta mánuði. Mógil kom fram á hátíðinni með stuðningi Kraums tónlistarsjóðs og í samstarfi við Kraum og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN / IMX) sem kom sveitinni að í dagskrá hátíðarinnar.

Tónleikarnir Mógil, sem fóru fram laugardaginn 31. október, tókust mjög vel og voru vel sóttir og hafa opnað fyrir bókanir á fleiri tónlistarhátíðir í ár. Hér fyrir ofan má sjá myndband frá tónleikunum.

Heiða Árnadóttir söngkona Mógil söng jafnframt eitt  af  lögum  Mógil  á opnunartónleikum  WOMEX, svökölluðu “Nordic  Nights” kvöldi. Tónleikunum var útvarpað beint á öllum Norðurlöndum og var Rás 2 með beina útsendingu hérlendis.

“WOMEX  tónleikarnir  í Kaupmannahöfn voru frábærir og okkur tókst vel upp á laugardagskvöldinu.  Við  í Mógil   vorum  mjög  ánægð  og fengum frábærar viðtökur. Þarna hittum við allskonar tónlistarmenn frá ýmsum heimshornum og mynduðum   skemmtileg   tengsl.   Nú   þegar   höfum  við  verið  pöntuð  á tónlistarhátíðir  í  Hollandi, Ítalíu og Englandi fyrir næsta sumar.  Fyrir okkur  var þetta því einstakt tækifæri til þess að kynna tónlistina okkar í Mógil.” – Heiða Árnadóttir, Mógil

Vikuna fyrir tónleika sína á WOMEX hélt Mógíl nokkra tónleika í Hollandi og Belgíu til að  hita  upp  fyrir  tónleika sína á hátíðinni.  Þeir tónleikar voru ekki aðeins góð upphitun heldur einnig kynning fyrir hljómsveitina og plötu hennar ‘Ró’ í þessum löndum.