Vel heppnað tónleikaprógram og sýning

October 19, 2009

Fjölmenni sótti tónlistardagskrá Kraums og ljósmyndasýningu Harðar Sveinssonar á Iceland Airwaves. Meðal leynigesta voru Bárujárn og Mugison.

Myndir og Mayhem,  ljósmyndasýning Harðar Sveinssonar helguð íslensku tónlistarlífi og fjölbreytt tónlistardagskrá henni samhliða, stóð yfir dagana 14.-20. október í Kaffistofunni, Hverfisgötu 52.

Tónleikadagskráin samanstóð af ungum og efnilegum hljómsveitum og tónlistarmönnum. Sýningin og dagskráin var öllum opin, ekkert aldurstakmark og enginn aðgangseyrir.

Óhætt er að segja að tónleikarnir og sýningin hafi mælst vel fyrir. Frábær mæting var á dagskránna, bæði meða Íslendinga og útlendinga, og staðurinn troðfylltist þegar hljómsveitir spiluðuðu. Meðal þeirra sem komu fram voru ungar og upprennandi hljómsveitir á borð við Sykur, Miri og Sudden Weather Change.

Leynigestir komu í heimsókn alla fjóra tónleikadagana; Bárujárn, Dynamo fog, Retrön og Mugison sem spilaði eftirminnilega tónleika, órafmagnaður standandi uppi á hátalara.

Hörður Sveinsson hefur síðustu ár ljósmyndað aragrúa hljómsveita og listamanna og má þar nefna Björk, Sigur rós, Emilíönu Torrini, múm, Megas, Magna og Mugison. Hörður hefur verið iðinn við að ljósmynda nýjar og spennandi hljómsveitir, sem sjá má á heimasíðum og MySpace síðum tugi íslenskra hljómsveita og listamann. Má þar nefna Agent Fresco, For A Minor Reflection og Retro Stefson.

Tónlistarprógrammið og sýningin er haldin í samstarfi við Kraum tónlistarsjóð. Kraumur hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, styðja við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan.

Útluflutningskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN / IMX) og Listaháskóli Íslands studdu einnig við syninguna. Fjölmennur hópur blaðmanna og starfsmanna tónlistarbransans mætti á dagskrána, fimmtudaginn 15. október, á sérstakt hóf á vegum ÚTÓN / IMX og lét mjög vel af tónleikum Mammút og dj Flugvél og Geimskip sem þá komu fram.

Hlekkir:
Hörður Sveinsson heimasíða
Hörður Sveinsson á Flickr