Kraumur úthlutar

May 11, 2011
Kraumur tónlistarsjóður kynnir úthlutun til listamanna og verkefna. Hærri styrkir og færri. Pascal Pinon og Retro Stefson með hæstu framlögin. Samtals níu milljónum varið til 15 verkefna á sviði íslenskrar tónlistar.

Kraumur tónlistarsjóður kynnti í dag úthlutun sína til verkefna listamanna, hljómsveita og annarra aðila á sviði íslenskrar tónlistar. Meðal þeirra sem hljóta stuðning eru hljómsveitirnar Pascal Pinon, Árstíðir og Endless Dark við kynningu á sér og tónlist sinni á erlendum vettvangi – auk þess sem Kraumur heldur áfram að vinna með og styðja við Retro Stefson og Dikta í sömu erindargjörðum. Í báðum tilvikum studdi Kraumur sveitirnar við undirbúning og gerð hljómplatna árin 2009 og 2010 (Get it Together og Kimbabwe) sem nú er stefnt á að kynna frekar á erlendum vettvangi.

Tónlistarhátíðin Eistnaflug, tónleikaferðin Póst rokk & ról, tónskáldið Guðmundur Steinn Guðmundsson og Sjóræningahúsið á Patreksfirði fá stuðning við tónleikhald innanlands, sem hluti af Innrásarverkefni sjóðsins. Markmið Innrásarinnar er að auka við möguleika listamanna og hljómsveita til tónleikahalds innanlands, gefa þeim færi á að koma sér og tónlist sinni á framfæri víðar en á höfuðborgarsvæðinu og efla tónlistarlíf á landsbyggðinni.

Alls bárust 233 umsóknir í nýliðið umsóknarferli Kraums og strax ljóst að Kraumur myndi aðeins styðja við lítinn hluta þeirra verkefna sem sótt var um stuðning fyrir að þessu sinni, enda yfirlýst stefna sjóðsins að styrkja frekar tiltölulega fá verkefni/listamenn – en gera það þannig að stuðningurinn sé afgerandi fyrir viðkomandi listamenn og verkefni þeirra. Í dag var tilkynnt um alls 15 verkefni sem Kraumur mun styðja við og styrkja að þessu sinni.

Sú breyting er á verkefnavali Kraums að þessu sinni að styrkir til listamanna og verkefna eru færri, en í flesta staði hærri og veglegri, en við síðustu úthlun. Er þetta í samræmi við álit fagráðs Kraums sem og niðurstöðu árangursmats Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands sem gert var fyrir Kraum og systursjóðinn Hönnunarsjóð Auroru og kynnt var í mars. Þar kom m.a. fram að styrkir sjóðsins til verkefna og listamanna hefði fjölgað, en að sama skapi upphæðir lækkað, frá því starfsemin var sett á laggirnar – sem getur veikt sérstöðu sjóðsin og möguleika þeirra sem stuðning hljóta til árangurs.

Megintilgangur Kraums er að styrkja íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga tónlistarmenn. Frá því sjóðurinn var settur á laggirnar í upphafi árs 2008 hafa yfir 70 hljómsveitir og listamenn fengið stuðning úr sjóðnum, auk þess sem Kraumur hefur sjálfur staðið fyrir fjölda verkefna (Hljóðverssmiðjur, Innrásin – stuðningur við tónleikahald innanlands, Kraumsverðlaunin & Kraumslistinn) auk stuðnings við verkefni Músíktilrauna Tónabæjar, Iceland Airwaves, Listahátíð í Reykjavík, Jazzhátíð í Reykjavík, Við Djúpið o.fl. sem nýst hafa fleirum og breiðum hópi listamanna.

Af þeim 15 verkefnum sem stuðning hlutu úr nýlegu umsóknarferli er eitt þeirra, samstarfsverkefni um námskeið fyrir tónlistarmenn á Aldrei fór ég suður, þegar átt sér stað.

—————————————————-
Pascal Pinon, Tónleikahald og kynning á frumburði sínum erlendis – 1.200.000
Retro Stefson*, Tónleikhald og kynningarstarf, Norðurlönd og Evrópa – 1.000.000
Árstíðir, Tónleikahald og dreifing í Rússlandi og Austur Evrópu – 800.000
Dikta*, Tónleikahald og kynning á verkum sínum í USA – 800.000
Endless Dark, Undirbúningsvinna og kynning á verkum sínum erlendis- 700.000
adhd, Kynningarvinna og tónleikar innanlands  – 600.000
Kalli, Kynningarvinna á erlendum vettvangi – 600.000
Anna Þorvaldsdóttir
, Undirbúningur og upptökur á portrait hljómdisk – 600.000
Who Knew, Tónleikahald á erlendum tónlistarhátiðum  – 600.000
Eistnaflug, Innrás: Tónlistarhátíð í Neskaupsstað – 500.000
Aldrei fór ég suður, Innrás: Námskeið fyrir tónlistarmenn og gesti – 400.000
Guðmundur Steinn Guðmundsson, Innrás: Tónleikar innanlands – 300.000
Póst rokk & ról, Innrás: Tónleikar Lockerbie og fleiri um landið – 300.000
Sjóræningahúsið, Innrás: Tónleikasería á Patreksfirði – 300.000
Sleepless in Reykjavik, Myndbandagerð um íslenskt tónlistarlíf  – 300.000
Samtals: 9.000.000

*Kraumur hefur áður stutt við undirbúning og upptökur á breiðskífum Dikta (Get it Together) og Retro Stefson (Kimambwe), sem sveitirnar vinna nú að því að gefa út og kynna á erlendum vettvangi – með stuðningi Kraums.

—————————————————-

Kraumur tónlistarsjóður , sem var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði, hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf – fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan. Markmið Kraums er að styrkja stöðu tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Kraumur vill styðja við og ýta undir nýsköpun og metnað á tónlistarviðinu.

Frá því Kraumur hóf starfsemi sína hafa yfir sjötíu listamenn og hljómsveitir hlotið stuðning frá sjóðnum og má þar nefna Amiina, Bang Gang, Bloodgroup, Celestine, Daníel Bjarnason, Dikta, Elfa Rún Kristinsdóttir, Hjaltalín, Lay Low, Melkorka Ólafsdóttir, Mugison, Nordic Affect, Njútón tónlistarhópur, Ólöf Arnalds, Seabear og Víkingur Heiðar Ólafsson. Kraumur hefur einnig haldið úti samstarfsverkefnum með Músíktilraunum Tónabæjar, Listahátíð í Reykjavík, Jazzhátíð í Reykjavík, Iceland Airwaves, Aldrei fór ég suður og fleiri aðilum.

Auk beins stuðnings við einstaka listamenn og hljómsveitir – og verkefni þeirra á sviði plötuútgáfu, tónleikahalds og kynningar á sér og verkum sínum innanlands sem utan – hefur Kraumur hrundið af stað og starfrækt eigin verkefni til breiðari stuðnings í tónlistarlífinu; m.a. Innrásinni til stuðnings tónleikhaldi innanlands, Kraumslistanum til að vekja athygli og styðja við íslenskri plötuútgáfu og þeim titlum sem þykja skara fram úr í frumleika og metnaði – og svokölluðum Hljóðverssmiðjum í samvinnu við Músíktilraunir, þar sem ungum og upprennandi listamönnum og hljómsveitum gefst kostur á að taka upp nýtt efni undir leiðsögn og fá ráð um næstu skref í ferlinum hjá reyndari tónlistamönnum.

————-