Kammerkórinn Carmina

May 24, 2010

Kammerkórinn Carmina stendur í ströngu við tónleikahald um þessar mundir með stuðningi Kraums.

Carmina hélt tvenna tónleika á Listahátíð í Reykjavík 15. og 16. maí sl. við frábærar undirtektir í þétt settinni Kristskirkju, og sagði Ríkarður Örn Pálsson í gagnrýni sinni í Morgunblaðinu að unaður hefði verið að hlýða á vel samstilltan söng hópsins.

Á döfinni eru tónleikar bæði innanlands og utan, á tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði í lok júní og á þýsku tónlistarhátíðinni Wege durch das Land þann 10. júlí.  Á báðum hátíðunum mun Carmina flytja blöndu af erlendri endurreisnartónlist (eftir Josquin des Prez, Tomás Luis da Victoria og Cristobál de Morales) og úr íslenskum nótnahandritum, Melódíu frá um 1650 og Hymnodia sacra frá árinu 1742.

Þá hefur hópnum verið boðið að koma fram á Spitalfields-tónlistarhátíðinni í Lundúnum og er stefnt að tónleikum þar 15. desember nk.  Auk þess er áformað að halda útgáfutónleika í Reykjavík og hugsanlega víðar, en nýr geisladiskur Carminu, Hymnodia sacra, er væntanlegur á markað í sumar.