Kraumur Tónlistarsjóður | Music Fund

Elfa Rún Kristinsdóttir gefur út breiðskífu

March 10, 2011

Elfa Rún Kristinsdóttir gefur út sína fyrstu breiðskífu, með stuðningi Kraums

Meðal þeirra listamanna sem Kraumur vann með og studdi á fyrsta starfsári sínu, árið 2008, var Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari. Áætlað var að upptökur við fyrstu breiðskífu hennar hæfust strax í lok þess árs, en ferlið tafðist og upptökur hófust ekki fyrr en ári seinna.

Það er síðan fyrst nú í upphafi árs 2011 sem fyrsta breiðskífa Elfu Rúnar, með verkum Johann Sebastian Bach, lítur dagsins ljós. Ars Produktion gefa plötuna út í Evrópu, en 12 tónar sjá um dreifingu hérlendis. Opinber útgáfudagur var 1. febrúar, en platan var fáanleg stuttu síðar á Íslandi.

Elfa Rún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem ‘Bjartasta vonin’ 2006 og hefur einnig verið tilnefnd til hvatningarverðlauna Evrópska menningarsjóðsins Pro Europa. Hún er fædd á Akureyri árið 1985 og útskrifaðist af Diplómabraut tónlistardeildar Listaháskóla Íslands vorið 2003, undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur og Auðar Hafsteinsdóttur. Frá hausti 2003 stundaði Elfa Rún nám við Tónlistarháskólann í Freiburg, en hún lauk námi þaðan í febrúar 2007 með hæstu einkunn.

Elfa Rún hefur leikið með ýmsum kammersveitum og -hópum síðastliðin ár. Hún er fastur meðlimur Kammersveitarinnar Ísafoldar og Solistenensemble Kaleidoskop í Berlín en hefur einnig leikið með Balthasar Neumann Ensemble, Freiburger Bachorchester, Feldkirch Festivel Orchester og Camerata Stuttart auk fleirri kammerhópa í Þýskalandi. Elfa Rún hefur leikið einleik með ýmsum hljómsveitum og má þar helst nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Áhugamanna, Royal Chamber Orchestra Tokyo og Akademisches Orchester Freiburg.

Elfa Rún í búsett í Berlín. Hún áætlar að hefja upptökur á nýrri breiðskífu strax í vor.