Sigursveit Músíktilrauna 2011 er Samaris

April 8, 2011

Kraumur tónlistarsjóður verðlaunar sigursveitir Músíktilrauna 2011 með sæti í Hljóðverssmiðjum.

Kraumur óskar hljómsveitinni Samaris til hamingju með sigur í hinni árlegu tónlistarhátíð og hljómsveitakeppni Músíktilraunum. Með sigrinum hefur sveitin, ásamt hljómsveitunum Súr og The Wicked Strangers sem lentu í 2. og 3. sæti, tryggt sér sæti í Hljóðverssmiðju Kraums fyrir árið í ár.

Músikiltraunir hefur verið einn helsti vettvangur ungra íslenskra tónlistarmanna til að koma sér og tónlist sinni á framfæri í yfir 25 ár, og hefur samstarf Kraums og Músiktilrauna verið mjög farsælt. Listi hljómsveita og listamanna sem borið hafa sigur úr bítum á Músíktilraunum er langur. Meðal sigurvegara keppninar – sem haldin hefur verið árlega frá 1986 – eru; Greifanir, Kolrassa Krókríðandi/Bellatrix, Maus, Botnleðja, Stjörnukisi, Mínus, XXX Rottweiler, Mammút, Jakobínarína, Agent Fresco og nú síðast Of Monsters and Men sem léku á úrslitakvöldi Músíktilrauna í ár.

Úrlslitakvöld Músíktilrauna 2011 fór fram í Íslensku óperunni. Fólkið valdi Hljómsveit fólksins í símakosningu sveitina Primavera. Verðlaun fyrir íslenska textagerð hlaut hljómsveitin Askur Yggdrasils. Einstaklingsverðlaun þetta árið voru gítarleikari Músíktilrauna – Hafsteinn Þráinsson úr Postartica. Bassaleikari Músíktilrauna – Alexander Örn Númason úr Postartica. Hljómborðsleikari/Forritari músíktilrauna – Þórður Kári Steinþórsson úr Samaris. Trommuleikari Músíktilrauna – Jósep Helgason úr The Wicked Strangers. Söngvari Músíktilrauna – Gunnar Guðni Harðarson úr The Wicked Strangers.

Markmiðið með Hljóðverssmiðjunum er að styðja við grasrótina í íslensku tónlistarlífi, miðla reynslu og gefa ungum og upprennandi tónlistarmönnum tækifæri á að taka upp efni sem nýst getur við kynningu, t.a.m. dreifingar á netinu og til útvarpsstöðva, og sem byrjun á upptökum á breiðskífu.

Þetta er í þriðja sinn sem Kraumur verðlaunar hljómsveitirnar sem lendar í fyrstu þrem sætunum á Músíktilraunum. Í kjölfar Músiktilrauna 2009 voru hljómsveitunum Bróðir Svartúlfs (#1 Músíktilraunir 2009), Ljósvaka (#2) og The Vintage (#3) boðin þátttaka í Hljóðverssmiðjum 2009 sem fram fóru í Tankinum á Ísafirði þar sem leiðbeinendur voru Mugison (Örn Elías Guðmundsson) tónlistarmaður, Páll Ragnar Pálsson tónlistarmaður með BA í Tónsmíði frá Listaháskóla Íslands og Önundur Hafsteinn Pálsson, tónlistarmaður, upptökumaður og tónlistarkennari á Ísafirði og Flateyri.

Hljóðverssmiðjur 2010 fóru fram í hljóðverinu Sundlaugin í Mosfellsbæ, en fjölmargir þekktir listamenn hafa unnið í hljóðverinu og má þar nefna Sigur Rós. Leiðbeinendur voru tónlistarmennirnir Mugison og Pétur Ben, ásamt Birgi Jón Birgissyni upptökustjóra. Þátttakendur voru hljómsveitirnar Monsters & Men (sæti #1 í Músíktilraunum 2010), The Assassin of a beautiful Brunette (#2) og Vulgate (#3).

Tenglar:
Músíktilraunir – heimasíða
Hljóðverssmiðjur Kraums