Ljóð um landið – Undurfagrir ljóðaflokkar

May 3, 2012

Næstu 3 helgar munu þau Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona og Gerrit Schuil píanóleikari ferðast um landið og flytja tvo af helstu ljóðaflokkum sem hafa verið samdir fyrir konur, annars vegar ljóðaflokkinn Stúlkan á heiðinni (Haugtussa) eftir Edvard Grieg og hins vegar Sumarnætur (Les Nuit´s d´Ete) eftir Hector Berlioz.

Tónleikarnir fara fram í Laugarborg, Eyjafjarðarsveit 6. maí kl. 16.00, í Egilsstaðakirkju 13. maí kl. 16.00 og í Hömrum, Ísafirði þann 20. maí kl 15.00.

Hallveig og Gerrit eru bæði vel þekkt fyrir flutning sinn á ljóðasöng, Hallveig hefur haldið marga ljóðatónleika hér á landi og erlendis og hvarvetna vakið mikla athygli fyrir frábæran flutning og Gerrit sem er einn af okkar helstu ljóðameðleikurum vann Íslensku tónlistarverðlaunin á síðasta ári fyrir flutning sinn ásamt Ágústi Ólafssyni á ljóðaflokkum Franz Schubert.

Tónleikaröð þeirra um landið er styrkt af Kraumi tónlistarsjóði og Tónlistarsjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.