Póstkort frá Extreme Chill Festival 2012 – Undir Jökli

July 11, 2012

Extreme Chill Festival 2012 – Undir Jökli var haldið helgina 29. Júni – 01. Júlí en þetta er í þriðja skiptið sem þessi stærsta raftónlistarhátíð landsins er haldin en í ár var hún eitt af 15 verkefnum á sviði íslenskrar tónlistar sem hlaut styrk frá Kraumi tónlistarsjóði.

Föstudagur:
Hátíðin byrjaði á föstudags kvöldinu í því gamla og sjarmerandi félagsheimil Röst með lifandi flutningi kl 20:00 og endaði kl 03:00 um nóttina. Kvöldið gekk mjög vel og stigmagnaðist með hverjum listamanninum og endaði í allsherjar dansi og stemmningu. Gaman að segja frá hve flott vizual/video þátturinn átti í að mynda þessa einstöku stemmningu.

Virkilega vel heppnað byrjunarkvöld fyrir hátíðina.

Laugardagur:
Dagskráin byrjaði á úti sviðinu á slaginu kl 12:00 á hádegi með lifandi flutningi í glampandi sól og blíðu og stóð dagskráin til kl 19:00. Algerlega sérstök stemmning myndaðist úti þegar veðrið var svo gott. Þarna var um 17° hiti og glampandi sól og erum við afar þakklátir veðurguðunum. Eins og einhver sagði “Guð hlýtur bara að fýla raftónlist”.

Þarna var fólk komið með börnin sín að dansa og virkilega góður andi sveif um allt svæðið á meðan tónlistarmennirnir léku tónlist sína.

Þessi stemmning setti virkilega góðan anda fyrir inni dagskrána sem hófst inni í félagsheimilinu kl. 20:00 stundvíslega.

Stemmningin varð strax mjög góð inni og stigmagnaðist þegar leið á kvöldið og nutu listamennirnir sín jafn mikið og fólkið sem dansaði. Gaman var að sjá hversu mikið íslensku listamennirnir lögðu i flutning sinn og skein það algerlega í gegn og smitaði út frá sér i gríðarlega góða stemmningu.

Breiður aldur var á tónlistarmönnunum og þeim sem sóttu hátíðina, alveg frá 18 ára aldri upp í 60 ára sem okkur fannst verulega gaman af að sjá.

Dagskránni lauk svo rétt yfir kl 03:00 um nóttina og labbaði fólk út úr félagsheimilinu með bros á vör og virkilega góðar minningar af þessari mögnuðu hátíð sem Undir Jökli er orðin.

Á svæðinu voru yfir alla hátíðina á milli 350 – 400 manns og er það talsverð aukning frá fyrri hátíðum, svo ljóst er að hátíðin er að stækka um sig og verða flottari með hverju árinu.

Gaman verður að sjá hvar hátíðin mun standa eftir nokkur ár með þessari jákvæðu þróun sem á sér stað. Að auki er gaman að segja frá því að hátíðin var valin af því virta tímariti The Guardian ein af 15 athyglisverðustu hátíðum í Evrópu sem var mjög mikill heiður og góð auglýsing.

Styrkurinn frá Kraumi gerði okkur kleift að gera þessa hátíð eins og við sáum hana alltaf fyrir okkur.

Við gátum gert vel við tónlistarmenn á margan hátt, þeir fengu mat og drykki og við stækkuðum talsvert við hljóðkerfið frá fyrra ári. Einnig gátum við fengið grafískan hönnuð til að sjá um hönnun og umbrot á öllu og myndbandalistamenn til þess að gera efni fyrir hátíðina sem var gríðarlega mikilvægt samspil með tónlistinni, mjög gott samspil milli hins sjónræna og hljóðræna.

Það er ljóst að þessi styrkur hjálpaði okkur afar mikið með að hátíðin gekk jafn vel og raun bar vitni og var jafn flott og hún varð. Við erum Kraumi verulega þakklátir fyrir að sýna þessu verkefni okkar þennan stuðning og að hafa trú á þessu.

Þetta er ástríða okkar og sinnum við því sem slíku.

Takk kærlega fyrir okkur allir hjá Kraumi tónlistarsjóði,

Bestu kveðjur frá Extreme Chill.