Sex hljómsveitir og listamenn hljóta Kraumsverðlaunin 2015

December 17, 2015

12389150_10153865458613258_551193687_oKraumsverðlaunin, plötuverðlaun Kraums tónlistarsjóðs, voru afhent í áttunda sinn í dag, fimmtudaginn 17. desember, í húsakynnum sjóðsins og fleiri í Vonarstræti 4B. 

Alls hlutu sex íslenskar hljómsveitir og listamenn verðlaunin í ár fyrir hljómplötur sínar, sem að mati dómnefndar þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.  Dj flugvél og geimskip fær verðlaunin fyrir sína þriðju breiðskífu Nótt á hafsbotniMr. Silla fyrir samnefnda breiðskífu, Asdfhg fyrir fraumraun sína Steingervingur, Misþyrming fyrir sína fyrstu plötu Söngvar elds og óreiðu, Teitur Magnússon fyrir sína fyrstu sólóplötu 27 og Tonik Ensemble, sem til þessa hefur gefið út smáskífur og endurhljóðblandanir af verkum annarra, fyrir sína fyrstu breiðskífu; Snapshots.

Kraumsverðlaunin eru ekki bundin ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar. Verðlaunin hafa verið afhent árlega frá árinu 2008 og hafa alls 46 íslenskar hljómsveitir og listamenn hlotið þau fyrir plötur sínar.

Kraumsverðlaunin 2015 hljóta:

  • asdfhg fyrir Steingervingur
  • Dj flugvél og geimskip fyrir Nótt á hafsbotni
  • Mr Silla fyrir Mr Silla
  • Misþyrming fyrir Söngvar elds og óreiðu
  • Teitur Magnússon fyrir 27
  • Tonik Ensemble fyrir Snapshots

KRAUMSVERÐLAUNIN
Kraumslistanum og Kraumsverðlaununum er ætlað að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra listamanna og hljómsveita með því að verðlauna og vekja sérstaka athygli á því sem er nýtt og spennandi – og þeim verkum sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.

Allar íslenskar plötur sem komið hafa út á árinu eiga möguleika á að komast á Kraumslistann og hreppa Kraumsverðlaunin. Bæði plötur sem eru gefnar út á geisladisk og/eða vínyl, sem og útgáfur á netinu. Tímasetning tilnefninga og úthlutunar Kraumsverðlaunanna er miðuð við jólagjafaflóðið, þegar tónistarlistamenn reiða sig hvað mest á plötusölu og ætla má að sóknarfæri séu fyrir íslenska tónlist að rata í fleiri jólapakka enda er tónlist góð og sígild jólagjöf.

Kraumsverðlaunin snúast ekki um eina ákveðna verðlaunaplötu heldur að beina kastljósinu að Kraumslistanum í heild og síðan að velja og verðlauna sérstaklega sex hljómplötur sem hljóta Kraumsverðlaunin. Kraumur mun styðja við verðlaunaplöturnar og reyna auka möguleika listamannanna bakvið þær til að koma verkum sínum á framfæri erlendis með því að kaupa ákveðinn fjölda af plötunum af tónlistarfólkinu eða útgefendum þeirra og dreifa til ýmissa starfsmanna tónlistarbransans, m.a. í samstarfi við aðila og tengiliði hérlendis.

Má þar nefna; Ásgeir, Mammút, Anna Þorvaldsdóttir, Hjaltalín, Retro Stefson, Hildur Guðnadóttir, Daníel Bjarnason, Cell 7, Sóley, Lay Low, ADHD, Ojba Rasta, FM Belfast, Hugi Guðmundsson, Agent Fresco, Samaris, Moses Hightower, Grísalappalísa, Helgi Hrafn Jónsson, Anna Guðný Guðmundsdóttir, Gunnar Andreas Kristinsson, Sin Fang, Ísafold kammersveit og Ólöf Arnalds.

DÓMNEFND
Kraumsverðlaunin eru valin af sextán manna dómnefnd sem skipað er fólki sem hefur margvíslega reynslu af því að fjalla um, spila og vinna með íslenska tónlist. Dómnefndina skipa: Árni Matthíasson (formaður), Alexandra Kjeld, Arndís Björk Ásgeirsdóttir, Arnar Eggert Thoroddsen, Andrea Jónsdóttir, Benedikt Reynisson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Heiða Eiríksdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Hildur Maral Hamíðsdóttir, Jóhann Ágúst Jóhannsson, María Lilja Þrastardóttir, Matthías Már Magnússon, Ólafur Páll Gunnarsson, Óli Dóri og Trausti Júlíusson.Dómnefnd Kraumsverðlaunanna hefur hlustað á hátt í annað hundrað hljómplatna við val sitt á Kraumslistanum og Kraumsverðlaununum 2015.

KRAUMUR
Aðstandandi Kraumslistans er Kraumur tónlistarsjóður sem er sjálfstætt starfandi sjóður á vegum Auroru velgerðarsjóðs. Kraumur hefur það að meginhlutverki að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan.